Fjallgöngumaðurinn sem leitað var er látinn

Frá K2.
Frá K2. AFP

Bandaríski fjallgöngumaðurinn Alex Goldfarb, sem hugðist klífa fjallið Broad Peak í grennd við K2, fannst látinn í gærkvöldi eftir umfangsmikla leit. John Snorri Sigurjónsson fjallgöngumaður, sem hefur freistað þess að komast á topp K2 að vetrarlagi, hafði frestað för sinni lengra upp fjallið til þess að leita Goldfarb sem týndist á laugardag.

Goldfarb hugðist klífa fjallið Broad Peak, sem er 8.051 metra yfir sjávarmáli, ásamt hinum ungverska Zoltan Szlanko. Útlit er fyrir að Goldfarb hafi fallið af fjallinu. 

Goldfarb og Szlanko komu í grunnbúðir fjallsins 8. janúar síðastliðinn. Þeir lögðu nokkrum dögum síðar af stað upp á Pastore Peak, lægra fjall á svæðinu í því skyni að aðlagast hæðinni. Szlanko ákvað að fara ekki lengra en Goldfarb ákvað að halda samt áfram. Hann fannst í hlíðum Pastore Peak, látinn.

John Snorri og félagar hans, pakistönsku feðgarnir Ali Sadpara og Sajid, lögðu af stað í björgunarleiðangur með þyrlu í gærmorgun. Í tilkynningu frá leiðangri Goldfarb er þökkum komið á framfæri til þeirra fyrir aðstoðina við leitina.

Fréttin hefur verið uppfærð með fréttum af andláti Goldfarb.

Sungu þjóðsönginn á toppnum

Upphaflegt markmið Johns Snorra var að vera fyrstur til að klífa K2, næsthæsta fjall heims, að vetrarlagi. Það tókst þó ekki enda komst hópur af nepölskum fjallgöngumönnum á tindinn á laugardag.

Í myndbandi á vefsíðu BBC ræðir leiðtogi teymisins, Nirmal Purja, við blaðamann. Hann greindi BBC frá því að teymið hafi sungið þjóðsöng Nepals þegar á toppinn var komið. Augnablikið hafi verið mjög tilfinningaþrungið og einstakt. 

Árangri teymisins er nú fagnað í Nepal. Purja sagðist sérstaklega stoltur af því að hafa fært síðasta og erfiðasta toppinn til Nepal. 

Gangan var erfið, að sögn Purja, og frostið mikið, allt að 70 gráður. Hann sagði að það sem hefði komið teyminu upp var ákafur vilji allra í hópnum til að komast upp og gera fjallgöngusamfélagið stolt. „Ég held að þessi stuðningur okkar við hvern annan hafi leitt til árangursins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert