Segir meðferðina á Úígúrum þjóðarmorð

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Kínverjar væru sekir um þjóðarmorð á Úígúrum og öðrum, aðallega múslimum. Jók hann þannig spennu milli stórveldanna á síðasta heila degi sínum í embætti. 

„Ég trúi því að þjóðarmorð séu í gangi, og að við séum að verða vitni að kerfisbundnum tilraunum til útrýmingar Úígúra af Kínverjum,“ sagði Pompeo í yfirlýsingu.

„Við munum ekki þegja. Ef kínverski kommúnistaflokkurinn fær að fremja þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu gagnvart eigin þjóð, ímyndið ykkur hvað hann verður hvattur til að gera við frjálsa heiminn, í nálægri framtíð,“ sagði Pompeo, en hávær gagnrýni á Peking hefur einkennt stjórnartíð hans.

Pompeo hvatti allar alþjóðastofnanir, þar á meðal dómstóla, til að taka upp mál gegn meðferð Kínverja á Úígurunum og lýsti því yfir að Bandaríkin myndu halda áfram að auka þrýstinginn.

Réttindasamtök telja að lágmark ein milljón Úígúra, ásamt öðrum, að mestu tyrkneskumælandi múslimar, séu vistaðir í búðum í vesturhéraði Xinjiang.

Úígúrar mótmæla fyrir framan kínversku ræðisskrifstofuna í Istanbúl í desember …
Úígúrar mótmæla fyrir framan kínversku ræðisskrifstofuna í Istanbúl í desember 2020. AFP

Sjónarvottar og aðgerðasinnar segja að Kína beiti valdi til þess að samþætta Úígúrana inn í  Han menningu meirihlutans með því að uppræta íslamska siði, meðal annars með því að neyða múslima til að borða svínakjöt og drekka áfengi sem er bannað í trú þeirra.

Kína neitar sök og heldur því fram að búðir þeirra séu starfsmenntunarstöðvar. Þeim sé einungis ætlað að draga úr aðdráttarafli íslamskra öfga í kjölfar árása.

Ólíkt mörgum ákvörðunum Pompeo gæti nýja stjórn Joe Biden, kjörins forseta Bandaríkjanna, tekið þjóðarmorðsyfirlýsingunni fegins hendi. 

Biden hefur kallað eftir aukinni áherslu á mannréttindi og í herferð sinni kallaði hann meðferðina á Úígúrum þjóðarmorð. Þetta þýðir að stjórn hans mun nú standa frammi fyrir minni þrýstingi um formlega yfirlýsingu þegar hún kemst til valda.mbl.is