Sjálfsvígum fjölgaði í seinni bylgjunni

Maður heldur á matarpoka. Matargjöfum hefur verið dreift til íbúa …
Maður heldur á matarpoka. Matargjöfum hefur verið dreift til íbúa landsins. AFP

Sjálfsvígstíðni í Japan jókst umtalsvert milli ára. Frá júlí til október jókst hún um 16% samanborið við sama tímabil árið áður. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar japanskra vísindamanna. Japan Today greinir frá. 

Mánuðirnir þrír sem rannsóknin tekur til eru á sama tímabili og önnur bylgja kórónuveirufaraldursins reið yfir. Þannig er talið hugsanlegt að tengsl séu milli hærri sjálfsvígstíðni og hertra takmarkana vegna faraldurs. Takmarkanir hafa aukið á atvinnuleysi og fjölmargir hafa misst lifibrauð sitt vegna þeirra. 

Því var þó öfugt farið í fyrri bylgju faraldursins þegar sjálfsvígstíðnin lækkaði um 14%. Í fyrri bylgjunni var talið að lægri sjálfsvígstíðni mætti rekja til færri vinnutíma og skólalokana. Það skilaði sér jafnframt í minni áhyggjum. Nú hefur þetta aftur á móti snúist við. Sérstaklega má sjá aukningu sjálfsvíga meðal kvenfólks. 

Þar jókst sjálfsvígstíðnin um 37% á tímabilinu. Það er um fimm sinnum meira en meðal karlmanna. Talsverðar takmarkanir hafa verið í gildi vegna faraldursins í Japan, en faraldurinn hefur verið á siglingu í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert