Um 30% Covid-sjúklinga þurftu aftur að leggjast inn

Bólusetningarherferð gegn kórónuveirunni er í fullum gangi í Bretlandi, en …
Bólusetningarherferð gegn kórónuveirunni er í fullum gangi í Bretlandi, en bresk rannsókn bendir til að tæplega 30% þeirra sem fá veiruna þurfi að leita aftur á sjúkrahús innan 140 daga frá útskrift þaðan. AFP

Nærri því 30% allra þeirra, sem smitast hafa af kórónuveirunni á Englandi, hafa þurft að leita aftur á sjúkrahús innan 140 daga frá því að þau voru útskrifuð þaðan. Þá hafa um 12,3% þeirra látist. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem greint var frá í The Guardian.

Enn á eftir að ritrýna rannsóknina, en hún byggðist á gögnum frá bresku hagstofunni og heimilislæknum á Englandi og náði til 47.780 manns. Sagði þar að tíðni þeirra sem fengu Covid-19 og þurftu að leita aftur á sjúkrahús væri 3,5 sinnum meiri en hjá þeim sem ekki fengu kórónuveiruna á sama tímabili.

Auk fyrrgreindra niðurstaðna benti rannsóknin einnig til þess að meiri líkur væru á líffæravandamálum eftir sjúkrahúsvistina hjá fólki undir sjötugu og þeim sem tilheyrðu minnihlutahópum.

Dr. Charlotte Summers, lektor í bráðalækningum við Cambridge sem tengdist ekki rannsókninni, sagði við Guardian að tölurnar sýndu að mikið verk væri enn eftir óunnið í tengslum við kórónuveiruna. „Þetta skiptir máli. Langvinnt Covid með svo hátt stig dauðsfalla og nýrra sjúkdóma skiptir algjörlega jafnmiklu máli og fjöldi þeirra sem deyja af völdum kórónuveirunnar.“

Bætti hún við að ef svo hátt hlutfall af fólki fengi langvinna lungna- og öndunarfærasjúkdóma eftir að hafa jafnað sig væri heilbrigðiskerfið allt í einu komið með risavaxna byrði sem það hefði ekki þurft að bera áður.

mbl.is