Fagna því að „vinur“ tekur við af Trump

Joe Biden mun í dag sverja embættiseið sem næsti forseti …
Joe Biden mun í dag sverja embættiseið sem næsti forseti Bandaríkjanna. AFP

Æðstu ráðamenn Evrópusambandsins lýstu yfir létti yfir því að bráðum eiga þeir vin í Hvíta húsinu eftir að Joe Biden tekur við embætti Bandaríkjaforseta af Donald Trump.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði að nota eigi tækifærið til að efna til „grunnsamnings“ á milli ESB og Bandaríkjanna.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tók undir orð hans. „Þessi virðulega athöfn fyrir utan bandaríska þinghúsið mun bera vitni um þrautseigju lýðræðis í Bandaríkjunum,“ sagði hún. „Og hún verður sönnun þess að enn og aftur, eftir fjögur löng ár, á Evrópa vin í Hvíta húsinu.“

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, flytur ræðu í morgun.
Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, flytur ræðu í morgun. AFP

Hún sagði einnig að þær milljónir Bandaríkjamanna sem kusu Trump og einhverjir þeirra sem hefðu efnt til óeirða fyrir hans hönd 6. janúar ættu að vera víti til varnaðar. „Trump Bandaríkjaforseti verður kannski farinn eftir nokkrar klukkustundir en stuðningsmenn hans eru enn til staðar. Yfir 70 milljónir Bandaríkjamanna kusu Trump í kosningunum,“ sagði hún.

„Nokkur hundruð þeirra ruddust inn í þinghúsið í Washington, vöggu lýðræðis í Bandaríkjunum, einungis fyrir nokkrum dögum. Svona líta hlutirnir í raun og veru út þegar kné er látið fylgja kviði, þegar lýðræðinu stafar raunveruleg hætta af völdum hatursorðræðu og fölskum fréttum,“ bætti hún við.  

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Von der Leyen líkti óeirðunum í Bandaríkjunum við nýlega tilraun þýskra aðgerðasinna til að ryðjast inn í þinghúsið í Berlín til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Einnig minntist hún á mál Jo Cox, bresks þingmanns, sem var myrtur af öfga-hægrimanni nokkrum vikum áður en Bretar ákváðu í atkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert