Fimmtán tilskipanir á fyrsta degi

Joe Biden Bandaríkjaforseti hóf fyrsta vinnudag sinn í Hvíta húsinu í kvöld á því að undirrita 15 forsetatilskipanir, auk þess sem hann sendi frá sér tvenn fyrirmæli til ríkisstofnana um að hefja undirbúning aðgerða. Aðgerðirnar 17 snerust flestar um að snúa við ákvörðunum sem fyrirrennari hans tók í starfi. 

Fyrsta tilskipunin sem Biden undirritaði fjallaði um grímuskyldu í byggingum og landareignum sem tilheyra bandaríska alríkinu, auk þess sem hún fól í sér áskorun til Bandaríkjamanna um að ganga með andlitsgrímur næstu hundrað daga til þess að stemma stigu við uppgangi kórónuveirunnar. 

Auk þess undirritaði Biden meðal annars tilskipun um að Bandaríkin myndu aftur ganga í hóp þeirra þjóða sem hlíta Parísarsamkomulaginu, sem og tilskipun um að Bandaríkin myndu ganga aftur í Alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO. Þá batt Biden enda á ferðabann sem Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti setti á árið 2017 á nokkur ríki þar sem múslimar eru í meirihluta.

Joe Biden Bandaríkjaforseti undirritaði 15 tilskipanir í kvöld.
Joe Biden Bandaríkjaforseti undirritaði 15 tilskipanir í kvöld. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert