Stór sprenging í Madríd: Þrír látnir

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AFP

Bygging hrundi þegar stór sprenging varð í Madríd fyrr í dag. Í það minnsta þrír létust í sprengingunni. Samkvæmt spænskum miðlum eru minnst sex særðir, þar af einn alvarlega.

Hús í nágrenninu hafa verið rýmd.

„Það lítur út fyrir að um gassprengingu hafi verið að ræða,“ sagði Jose Luis Martinez-Almeida, borgarstjóri Madrídar, við blaðamenn á svæðinu. 

Sprengingin varð í miðborg Madrídar við Toledo götu. Níu teymi slökkviliðsmanna og 11 sjúkrabílar hafa verið sendir þangað. 

Byggingin sem skemmdist er í eigu erkibiskupsdæmisins í Madríd. Hún er í nágrenni grunnskóla. Nemendur hafa verið fluttir úr skólanum en þeir þurftu að skilja persónulega muni þar eftir. Samkvæmt heimildum laSexta voru börnin flutt úr skólanum vegna sterkrar gaslyktar og ótta við aðra sprengingu.

Hjúkrunarheimili er einnig staðsett nálægt byggingunni og verða íbúar þess líklega fluttir á hotel. 

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, segist harma atburðinn. 

Frétt laSexta

Fréttin hefur verið uppfærð

Byggingin er svo til gjöreyðilögð.
Byggingin er svo til gjöreyðilögð. AFP
Lögreglumenn á vettvangi.
Lögreglumenn á vettvangi. AFP
AFP
mbl.is