Stórþingið hnekkir áfengisbanninu

Norska Stórþingið ákvað í gær að undirlagi Framfaraflokksins að bann …
Norska Stórþingið ákvað í gær að undirlagi Framfaraflokksins að bann ríkisstjórnarinnar við sölu áfengis á veitingahúsum sem selja mat skyldi fellt úr gildi og gerist það á miðnætti annað kvöld. Í Ósló gildir bannið þó áfram, enda runnið undan rifjum borgarstjórnar, ekki ríkisins. Ljósmynd/Dreamstime

Norska Stórþingið tók í gær fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og samþykkti með atkvæðagreiðslu að bann við sölu áfengis á veitingastöðum, sem stjórnin fyrirskipaði frá 4. janúar, skyldi afnumið að hluta.

Telur þingið óhætt að veitingastaðir, sem einnig selja mat, selji áfengi í þeim sveitarfélögum landsins þar sem smittölur eru lágar. Ákvörðun þingsins hefur þó engin áhrif í höfuðborginni Ósló, enda áfengissölubann þar frá því í nóvember runnið undan rifjum borgarstjórnar. Í gærmorgun var tilkynnt um 103 ný smit í Ósló síðasta sólarhring þar á undan, sem þó er mikil fækkun miðað við tölur fyrstu vikna ársins.

Hvín í tálknum Høie

Bent Høie heilbrigðisráðherra staðfesti í gær að ríkisstjórnin beygði sig fyrir vilja löggjafarþingsins og greindi ráðuneyti hans frá því í fréttatilkynningu að þær reglur sem giltu fram til 4. janúar tækju gildi á ný á miðnætti á morgun, fimmtudag, það er að veitingastöðum sem selja mat verði á ný leyft að selja áfengi, þó aðeins til miðnættis og engum gestum verði hleypt inn á veitingahús eftir klukkan 22. Taki breytingin til alls landsins, utan Óslóar.

Høie er þó ekki alls kostar ánægður með ákvörðun þingsins og sagði í gær við norska ríkisútvarpið NRK að fullsnemmt væri að heimila sölu áfengis á ný, staðan í landinu væri sveipuð óvissu og reynsla annarra þjóða af drykkju á almenningsstöðum á kórónutímum væri slæm.

Kvað ráðherra Stórþingið ábyrgt ef illa færi. „Stórþingið ber ábyrgðina þegar það tekur fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi, en stjórnin fer að sjálfsögðu að vilja þingsins,“ sagði hann.

Segir ráðherra barnalegan

Það var Framfaraflokkurinn, FrP, sem flutti tillöguna um að hnekkja banninu og var Sósíalíski vinstriflokkurinn, SV, einn þeirra flokka sem snerust á sveif með FrP og veittu tillögunni brautargengi.

Torgeir Knag Fylkesnes, þingmaður SV, segir það ekki hafa verið vilja þingsins að fella áfengissölubannið úr gildi um allt land. „Nú hegðar Høie sér barnalega, hann opnar allt landið og lætur eins og það sé það sem hann var beðinn um. Hið rétta er hins vegar að þingið samþykkti að opna fyrir áfengissölu í sveitarfélögum þar sem lítið er um smit, ekki um allt land,“ skrifar Fylkesnes í tölvupósti til NRK í gær.

Siv Jensen, leiðtogi FrP, telur að sveitarfélögin séu einfær um að ákveða hvort ástandið sé þannig að óhætt sé að skrúfa frá krönunum eður ei. „Ef þú getur sest inn á veitingahús og fengið þér kjötbollur hlýturðu líka að geta fengið þér bjór eða glas af víni. Það breytir engu um smitleiðir. Barir og krár eru annað mál, enda nær tillagan ekki til slíkra staða,“ sagði Jensen í gær.

Hyggst ekki aflétta banni í Þrándheimi

Sitt sýnist þó hverjum um að hefja áfengissölu á nýjan leik á meðan smitum fjölgar í 24 norskum sveitarfélögum miðað við tölur gærdagsins og hyggst Rita Ottervik, borgarstjóri Þrándheims, ekki afnema bannið þar í borg.

„Við lögðum bann við áfengissölu klukkan 22 á annan í jólum og ég er þeirrar skoðunar að það bann eigi að standa hvað sem þingið segir,“ sagði Ottervik í gær, en fagnaði því þó að þingið færði sveitarfélögunum ákvörðunarvald í málinu. „Það þýðir ekki að við hyggjumst notfæra okkur það,“ sagði borgarstjórinn.

Starfsbróðir hennar í Kristiansand, Jan Oddvar Skisland, fagnaði einnig ákvörðun þingsins, en ólíkt Ottervik hyggst hann ekki standa í vegi fyrir þessu nýfengna frelsi, svo þar í bænum munu þeir íbúar, sem hafa aldur til, geta pantað sér guðaveigar frá og með föstudegi á þeim veitingahúsum sem hafa matseld með höndum.

NRK

Dagsavisen

Finansavisen

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert