Trump skildi eftir bréf til Bidens

Forsetahjónin gengu um borð í þyrlu sem flutti þau á …
Forsetahjónin gengu um borð í þyrlu sem flutti þau á Andrews-herflugvöllinn. AFP

Donald Trump skildi eftir bréf fyrir arftaka sinn Joe Biden áður en hann yfirgaf Hvíta húsið fyrr í dag.

Þetta staðfestir Judd Deere, einn talsmanna forsetans fráfarandi, í samtali við fréttastofu AFP.

Forsetinn, sem neitaði að horfast í augu við ósigur sinn í kosningunum í meira en tvo mánuði, hefur enn ekki óskað Biden til hamingju með sigurinn.

Fyrri bréf forsetanna

„Við erum aðeins tímabundnir íbúar þessarar skrifstofu,“ skrifaði Barack Obama í bréfi til Trumps fyrir fjórum árum, og hélt þar með uppi hefð sem Ronald Reagan byrjaði þegar hann skildi eftir bréf fyrir þáverandi varaforseta sinn George H. W. Bush árið 1989.

Bush skildi svo eftir bréf fyrir Bill Clinton eftir að hafa gegnt embætti forseta í aðeins eitt kjörtímabil, eins og Trump.

„Þetta verða mjög erfiðir tímar,“ skrifaði Bush þá. „Ekki leyfa gagnrýnendum að draga úr þér kjarkinn eða ýta þér út af brautinni.“

Hélt hann áfram: „Þú verður forseti okkar þegar þú lest þessi skilaboð. Ég óska þér velfarnaðar. Ég óska fjölskyldu þinni velfarnaðar. Árangur þinn er núna árangur okkar lands. Ég held með þér. Gangi þér vel.“

mbl.is