Umdeildar sakaruppgjafir Bandaríkjaforseta

Trump fyrr í dag ásamt forsetafrúnni Melaniu.
Trump fyrr í dag ásamt forsetafrúnni Melaniu. AFP

Algengt er að Bandaríkjaforsetar sem eru að hverfa úr embætti veiti fólki sakaruppgjöf áður en þeir yfirgefa Hvíta húsið, líkt og Donald Trump gerði í morgun.

Alexander Hamilton, einn af stofnfeðrum Bandaríkjanna, lagði til að lög þess efnis yrðu samþykkt árið 1787 og eru þau núna að finna í annarri grein stjórnarskrárinnar.

Forsetar geta aðeins veitt sakaruppgjöf þegar um glæpi er að ræða þar sem brotið hefur verið gegn alríkislögum. Með henni veita þeir fólki eftirgjöf refsingar að nokkru eða öllu leyti. Náðanir hafa verið umdeildar síðan þær hófust. Á upphafsárum Bandaríkjanna voru þær meðal annars veittar vegna dóma fyrir landráð og uppreisn, að því er BBC greindi frá.

Netaði að þiggja sakaruppgjöf

Einn maður sem var fundinn sekur um að hafa stolið pósti neitaði að þiggja sakaruppgjöf árið 1833 og var hann tekinn af lífi eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að hann mætti hafna henni. Þegar horft er til seinni ára veitti Gerald Ford, þáverandi Bandaríkjaforseti, Richard Nixon sakaruppgjöf fyrir alla þá glæpi sem hann gæti hafa framið og Jimmy Carter gerði slíkt hið sama fyrir þá sem komu sér undan herþjónustu í Víetnam. Í báðum þessum tilfellum var sakaruppgjöfin veitt áður en nokkur dómur hafði verið kveðinn upp.

Bill Clinton var gagnrýndur fyrir að veita hópi fólks sakaruppgjöf á síðasta degi sínum í embætti, þar á meðal hálfbróður sínum Roger sem hafði hlotið dóm fyrir að hafa kókaín í fórum sínum. Einnig náðaði hann auðjöfurinn Marc Rich sem hafði stutt Demókrataflokkinn með vænum fjárframlögum. Hann hafði verið dæmdur fyrir skattsvik.

Barack Obama veitti einnig hermanninum Chelsea Manning sakaruppgöf, sem hafði verið dæmdur fyrir að leka leyniskjölum til WikiLeaks.

Richard M. Nixon flytur kveðjuræðu.
Richard M. Nixon flytur kveðjuræðu.

Sakaruppgjafir Trumps fáar

Donald Trump leit ávallt á sig sem forseta „laga og reglu“. Þegar horft er til fjölda sakaruppgafa sem hann hefur veitt eru þær fáar. Á seinni tímum hefur aðeins George W. H. Bush veitt færri. Trump veitti í forsetatíð sinni innan við 1% af óskunum sem honum bárust um sakaruppgjöf, sem er það minnsta í sögunni.

Eðli þessara sakaruppgjafa Trumps hefur aftur á móti þótt umdeilt. Margir þeirra sem hafa hlotið hana hafa verið nánir samstarfsmenn og samherjar hans, þar á meðal fyrrverandi kosningastjóri hans Paul Manafort, samstarfsmaður hans til langs tíma Roger Stone og einnig Charles, faðir tengdasonar hans Jared Kushner. Steve Bannon bættist síðan við þennan lista. Sakaruppgjöf þess síðastnefnda er óvenjuleg vegna þess að Bannon hafði verið ákærður fyrir glæp en ekki hafði verið réttað yfir honum.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá Bannon koma Trump til varnar vegna áskana um kynþáttafordóma: 

Á meðal þeirra sem Trump veitti sakaruppgjöf seint á síðasta ári, auk Manafort og Stone, voru samherjar hans Michael Flynn, George Papadopoulos og Alex Van Der Zwaan. Allir játuðu þeir sekt sína eða voru dæmdir eftir rannsókn Roberts Muellers á því hvort kosningateymi Trumps hefði verið í samsæri með Rússum á meðan á forsetakosningunum stóð árið 2016.

Auk þess að veita röppurunum Lil Wayne og Kodak Black sakaruppgjöf í morgun náðaði Trump Michael „Harry O“ Harris, einn af stofnendum plötuútgáfunnar Death Row Records. Hann var að afplána 32 ára dóm fyrir morðtilraun og fíkniefnasmygl. Rapparinn Snoop Dogg hafði barist fyrir lausn hans.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Sakaður um að hygla vinum 

Andstæðingar Trumps hafa sakað hann um að nota stjórnarskrárbundin völd sín á óhefðbundinn hátt til að hygla vinum sínum og nánum stuðningsmönnum. Vangaveltur voru uppi um að Trump myndi reyna að veita sjálfum sér eða öðrum í fjölskyldunni fyrirfram sakaruppgjöf áður en nokkrar ákærur voru komnar. Honum var ráðið frá því, enda engin fordæmi fyrir slíku.

Trump var nýlega ákærður í annað sinn til embættismissis og þarf hann líklega að sitja réttarhöld í öldungadeild Bandaríkjaþings vegna þess. Engin dagsetning þess efnis hefur þó verið gefin út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert