Áróðursherferð gegn bóluefnum Vesturlanda

Kínversk yfirvöld virðast hafa markað sér stefnu um að varpa …
Kínversk yfirvöld virðast hafa markað sér stefnu um að varpa fram samsæriskenningum um uppruna kórónuverunnar, samhliða því að draga úr trúverðugleika bóluefnis Vesturlanda. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa, að því er virðist, hafið umfangsmikla áróðursherferð og leggja áherslu á að ýta undir efasemdir um ágæti bóluefna frá Vesturlöndum og samsæriskenningar um uppruna kórónuveirunnar, sem valdið hefur ómældum skaða um heim allan, í þeim tilgangi að beina athygli almennings frá upptökum faraldursins í Wuhan og hugsanlegum vanköntum er tengjast kínverska bóluefninu.

Fram kemur í umfjöllun Washington Post að kínverskir vísindamenn hafa sagt best fyrir Evrópu og Ástralíu að hafna bóluefni frá Bandaríkjunum sem búið hafi verið til í „flýti“ og hefur verið bendlað við dauðsföll eldri borgara. Þá hefur fréttamaður ríkissjónvarpsstöðvar Kína haldið því fram að vestrænir fjölmiðlar neiti að rannsaka þá meintu hættu sem stafar af Pfizer-BioNTech bóluefninu.

Kínversk stjórnvöld vilja ekki ræða takmarkaða vernd bóluefnisins frá Sinovac.
Kínversk stjórnvöld vilja ekki ræða takmarkaða vernd bóluefnisins frá Sinovac. AFP

Jafnframt hefur fréttastjóri kínversks ríkisfjölmiðils gefið í skyn að kórónuveirufaraldurinn hafi verið liður í samsæri og er fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Donald H. Rumsfeld, sagður einn höfuðpauranna. Auk þess ýjaði talskona kínverska utanríkisráðuneytisins nýverið að því að uppruna veirunnar megi hugsanlega rekja til bandarísku herstöðvarinnar Fort Detrick.

Skilaboðin eru skýr frá fulltrúum kínverskra ríkismiðla og embættismanna: Kórónuveiran sem veldur Covid-19 kom ekki frá Kína og bandarískt bóluefni er ekki öruggt, í andstöðu við hið kínverska.

Beina athygli frá eigin bóluefni

Áróðursherferð kínverskra yfirvalda er talin til þess fallinn að beina athygli heimsbyggðarinnar annað í kjölfar þess að rannsóknir í Brasilíu leiddu í ljós að kínverska bóluefnið frá Sinovac hafi aðeins veitt 50,4% vernd. Kom meðal annars fram í kínverska dagblaðinu Global Times í kjölfar frétta af niðurstöðunum að 23 eldri borgarar í Noregi höfði látið lífið eftir að hafa verið bólusettir með bóluefni Pfizer-BioNTech og fylgdi umfjölluninni ummæli kínverskra sérfræðinga sem vöruðu við notkun bóluefnisins.

Hu Xijin, ritstjóri Global Times, fullyrti í vikunni að vestrænir fjölmiðlar væru markvisst að reyna að eyðileggja trúverðugleika kínverskra bóluefna og að Kína þyrfti að svara. Í kjölfarið ahaf kínverskir ríkismiðlar birt myndir af bólusetningu erlendra þjóðarleiðtoga með Sinovac bóluefninu.

Nýlega velti George Gao, forstjóri sóttvarnastofnunar kínverskra yfirvalda, því upp hvort bóluefni Pfizer-BioNTech og bóluefni Moderna auka líkur á krabbameini. Vísindamaðurinn Zhong Nanshan, sem stundum talar fyrir hönd kínverskra stjórnvalda í sóttvarnamálum, hefur sagt klínískar rannsóknir sem liggja að baki bóluefnanna tveggja „ófullnægjandi“.

Á sýningu yfirvalda í Wuhan um baráttuna gegn veirunni.
Á sýningu yfirvalda í Wuhan um baráttuna gegn veirunni. AFP

Rannsaka upprunan í Wuhan

Herferðin er einnig talin miða að því að skapa ringulreið og óvissu einmitt á þeim tíma er tíu vísindamenn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) eru í borginni Wuhan í þeim tilgangi að rannsaka upphaf veirunnar. En pólitík er talin hafa haft áhrif á framgang þess máls enda hefur tekið hátt í ár að fá kínversk stjórnvöld til að heimila alþjóðlegum vísindamönnum að rannsaka uppruna faraldursins í Wuhan.

Vísindamenn segja það vissulega mögulegt en ólíklegt að veiran hafi borist til Kína með kældum varningi um borð í flutningaskipi, eins og ein kínversk kenning gefur til kynna.

Þá telja vísindamenn ástæðu til þess að rannsaka dauðsföll sem hafa orðið í kjölfar bólusetninga en fátt bendir til þess að bóluefnið hafi orsakað dauða eldri borgaranna, heldur er líkleg skýring talin vera hrörlegt heilsufar þeirra sem skilgreindir hafa verið í áhættuhóp og hljóta þar af leiðandi bólusetningu.

mbl.is