Boða útgöngubann í Hollandi

Hollensk yfirvöld stefna á að setja útgöngubann fyrir landið allt frá 23. janúar. Þetta verður í fyrsta skipti síðan faraldurinn braust út snemma á síðasta ári sem yfirvöld þar í landi grípa til þess ráðs til að hefta útbreiðslu Covid-19. 

Allt flug frá Bretlandi, Suður-Afríku og Suður-Ameríku verður bannað frá 23. janúar vegna þeirra bráðsmitandi afbrigða sem þar hafa greinst. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, greindi frá þessu í gær. 

Útgöngubannið gildir frá 20:30 til 4:30 og að sögn Rutte tekur það gildi á næstu dögum, það er eftir að það verður samþykkt af þinginu en til stóð að það tæki gildi á morgun en vegna harðra umræðna á þingi hefur það frestast.  Áætlað er að það gildi til 10. febrúar. 

„Þetta eru harðar aðgerðir. Það vill enginn útgöngubann. Það er enginn að fagna þessu,“ segir Rutte. Hann segir að ekki verði gripið til svo harkalegra aðgerða án þess að þingið leggi blessun sína yfir það. Ef ekki er nægur stuðningur fyrir hendi þar þá verði ekki sett á útgöngubann. Þeir sem rjúfa útgöngubannið þurfa að greiða 95 evrur í sekt fyrir brotið. 

Mjög harðar sóttvarnareglur hafa gilt í Hollandi undanfarnar vikur. Þar eru meðal annars skólar lokaðir og verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru. Nú má aðeins einn gestur koma í heimsókn á heimili í stað tveggja áður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert