Létust í brunanum á Andøy

Þau létust í eldsvoðanum á Andøy í Nordland í Noregi …
Þau létust í eldsvoðanum á Andøy í Nordland í Noregi aðfaranótt laugardags. Frá vinstri: Henning Christian Bang Johansen, 15 ára, Mogens Pareli Krogh Hovde, 15 ára, Hedda Madell Bang Winther, 10 ára, og Gustav Rane Krogh Hovde, 12 ára. Móðir Heddu og Hennings, Luise Marie Bang sem stóð á fertugu, lést einnig í brunanum, en föður hinna tveggja lánaðist að komast út úr brennandi húsinu og kalla eftir hjálp. Ljósmynd/Úr einkasafni/Lögreglan í Nordland

„Við erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu hér og viljum einnig þakka öllum viðbragðsaðilum,“ segir í yfirlýsingu frá foreldrum barnanna fjögurra sem létust ásamt móður tveggja þeirra í sumarbústaðarbrunanum við Risøyhamn á Andøy í Nordland-fylki í Noregi um síðustu helgi.

Börnin sem létust eru annars vegar bræðurnir Gustav Rane Krogh Hovde, 12 ára, og Mogens Pareli Krogh Hovde, 15 ára, og hins vegar systkinin Hedda Madell Bang Winther, 10 ára, og Henning Christian Bang Johansen, 15 ára. Luise Marie Bang, fertug móðir Heddu og Hennings, lést einnig í brunanum, en faðir Gustav og Mogens komst einn út úr brennandi bústaðnum og hljóp berfættur og fáklæddur fjögurra kílómetra leið til að hringja á hjálp.

„Við erum sameinuð í sorginni og verðum sameinuð þann tíma sem koma skal. Saman munum við styðja hvert annað til að halda áfram. Sorg okkar og örvænting er djúp,“ segja Ragnhild og Hallvard, móðir og stjúpfaðir Gustav og Mogens, enn fremur í yfirlýsingu sinni.

Ættingjar Heddu og Hennings þakka öllum í litla samfélaginu Vågan sem lagt hafa sitt lóð á vogarskálarnar til að gera þeim lífið auðveldara í kjölfar harmleiksins. Fjöldi fólks hafi haft samband eða komið og rætt við þau. „Einhverjir óttast að hafa samband og eru hræddir um að segja eitthvað vitlaust, en það er betra að hafa samband en að gera það ekki,“ hefur talsmaður fjölskyldunnar, Tomas Brede Johansen, eftir henni.

Mannskæðasti eldsvoði í 12 ár

Mannskæðari eldsvoði en varð á Andøy um síðustu helgi hefur ekki orðið í Noregi síðan í desember 2008 þegar sex létu lífið í stórbruna við Urtegata í Grønland-hverfinu í Ósló, en aðeins fáeinum vikum áður fórust sjö, þar af tvö börn, í öðrum stórbruna í Drammen. Þá er skammt að minnast þess þegar móðir og þrjú börn hennar létu lífið í eldsvoða í Bergen 4. janúar í fyrra sem mbl.is fjallaði ítarlega um.

Rannsóknarlögreglan Kripos vinnur nú að rannsókn á vettvangi með það fyrir augum að leiða í ljós hvað orsakaði brunann aðfaranótt laugardagsins 16. janúar. „Við viljum komast að því hver dánarorsök fólksins var og reyna að finna ummerki á hinum látnu sem gefa til kynna hvað gerðist,“ segir Håvard Haftor Arntzen, sviðsstjóri hjá Kripos, í samtali við norska dagblaðið VG.

Hann segir rannsóknina munu taka langan tíma þar sem bústaðurinn brann algjörlega til kaldra kola, enda tókst ekki að koma boðum til neyðarlínu fyrr en eldurinn hafði logað drykklanga stund og þá áttu viðbragðsaðilar eftir að komast á vettvang.

„Tjónið er svo mikið að þetta verður tímafrekt,“ segir Arntzen og bætir því við að lögreglan vinni út frá nokkrum kenningum um eldsupptök, þótt ekki vilji hann ræða neina þeirra kenninga enn sem komið er.

Svolvær í Vågan. Kirkjurnar þar og í Henningsvær voru opnaðar …
Svolvær í Vågan. Kirkjurnar þar og í Henningsvær voru opnaðar syrgjandi bæjarbúum eftir voðaatburðinn á laugardaginn og þeim boðið upp á kaffi, spjall og samveru. Alls sinnti um 50 manna hjálparteymi úr ýmsum áttum áfalla- og annarri hjálp í Vågan um helgina að sögn séra Gunnars Más Kristjánssonar, þjónandi prests þar í bænum, sem ræddi við mbl.is á sunnudaginn. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Fyrst safna þeir [tæknimenn] vísbendingum utan við bústaðinn og skrá þær áður en svokölluð grófhreinsun hefst þar sem stærri hlutar hússins eru fjarlægðir og þá tekur fínhreinsunin við þar sem unnið er með skeiðum og jafnvel tannburstum við að fínkemba vettvanginn. Litlu atriðin geta sagt okkur svo ótrúlega mikið,“ útskýrir Arntzen, „margt af því sem finnst við þessa vinnu þarf að senda á rannsóknarstofu Kripos og skoða þar.“

Hann segir rannsókn brunavettvangs erfiða og skítsæla vinnu sem minni um margt á rannsóknir fornleifafræðinga. „Brunar eru eitt af því erfiðasta sem við rannsökum af því að eldurinn, reykurinn og vatnið frá slökkviliðinu eyðileggur vísbendingarnar. Við þurfum að raða saman flóknu púsluspili áður en við getum farið að draga ályktanir,“ segir sviðsstjórinn um vinnuna á vettvangi harmleiksins sem kostaði fimm manns lífið á Andøy aðfaranótt laugardags.

NRK

VG

Dagbladet

Aftenposten

mbl.is