Opnar á samstarf við umdeildan flokk

Ulf Kristersson, for­maður hægri­flokks­ins Modera­terna, opnar nú á samstarf við …
Ulf Kristersson, for­maður hægri­flokks­ins Modera­terna, opnar nú á samstarf við Svíþjóðardemókrata, fyrstur sænskar stjórnmálaleiðtoga. AFP

Ulf Kristersson, formaður sænska hægriflokksins Moderaterna, kveðst í viðtali sem birt var í sænska ríkissjónvarpinu SVT sannfærður um að hægt sé að eiga samstarf við Svíþjóðardemókrata , en allir flokkar á sænska þinginu hafa til þessa forðast samstarf við flokkinn sem gagnrýndur hefur verið fyrir lýðhyggju og andstöðu við komu hælisleitenda til Svíþjóðar.

Kristersson, sem hefur hafnað öllu samstarfi við Svíþjóðademókrata, segir nú að orðræðu flokksins hafa breyst og að stjórnmálastefna flokksins hafi orðið trúverðugri.

„Ég held að orðræða Svíþjóðardemókrata hafi breyst mikið á undanförnum árum. Þeir hafa meiri pólitíska breidd og taka þátt í þingstörfum af fullum alvara. Í samtölunum sem við höfum átt við þá varðandi til dæmis afbrotamál, innflytjendastefnu og orkustefnu, held ég að þau hafi verið einlæg og uppbyggileg. Og þeir hafa verið eins uppbyggilegir og allir aðrir í kórónuveirufaraldrinum,“ segir hann.

Samt ekki í ríkisstjórn

Þrátt fyrir að opna á samstarf við hinn umdeilda flokk tekur Kristersson sérstaklega fram að hann hyggst ekki mynda ríkisstjórn með Svíþjóðardemókrötum.

„Ég hef sagt Svíþjóðardemókrötum, og ég stend fastur á því, að við erum fús til að vinna með ykkur í málum þar sem við höfum sambærilega afstöðu. […] En við munum ekki mynda sameiginlega ríkisstjórn heldur ætlum við að mynda ríkisstjórn með Kristilegum demókrötum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert