Reisa sóttkvíabúðir fyrir 4.000 manns í Kína

Gripið hefur verið til ráðstafanna í Kína í kjölfar þess …
Gripið hefur verið til ráðstafanna í Kína í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn fór á flug á ný þar í landi. AFP

Kórónuveirufaraldurinn heldur áfram að herja á kínversku þjóðinni og búa milljónir við miklar takmarkanir vegna þessa, að því er fram kemur í umfjöllun CNN. Þarlend stjórnvöld hafa þegar hafið vinnu við að reisa sóttkvíabúðir sem ætlað er að hýsa fjögur þúsund einstaklinga við borgarmörk Shijiazhuang í Hebei-héraði, en borgin er um 300 kílómetra frá höfuðborginni Peking.

Kínversk yfirvöld hafa áður sagst hafa náð tökum á faraldrinum og hafði daglegt líf í flestum hlutum landsins færst í eðlilegt horf, en í þessum mánuði blossaði faraldurinn upp á ný og eru sérstakar áhyggjur tengdar þessu tímabili þar sem styttist í hátíðahöld vegna kínverska nýársins sem jafnframt er stærsta hátíðin í Kína.

Heilu þorpin flutt

Yfirvöld í Shijiazhuang, þar sem flest smit greinast, hafa þegar gripið til umfangsmikilla ráðstafanna svo sem sýnatökur og samkomubanns. Jafnframt hafa heilu þorpin verið flutt í einangrunarbúðir til þess að hefta útbreiðslu veirunnar.

Búðunum sem nú er verið að ljúka við að reisa var fyrst ætlað að hýsa um þrjú þúsund einstaklinga sem hafa átt í samskiptum við einstaklinga sem hafa reynst smitaðir, en ákveðið hefur verið að stækka búðirnar svo þær geti tekið við 4.150 einstaklingum. Fyrsti áfangi var kláraður á sex dögum og sex nóttum af fjögur þúsund verkamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert