Sjö stiga skjálfti við Filippseyjar

Filippseyjar.
Filippseyjar. Kort/Google

Stór jarðskjálfti, sem mældist sjö að stærð, varð suður af Filippseyjum í dag að sögn bandarísku jarðvísindastofnunarinnar. Engar fregnir hafa borist af manntjóni eða eyðileggingu. 

Skjálftinn varð kl. 20:23 að staðartíma (kl. 12:23 að íslenskum tíma í dag) um 310 km suðaustur af borginni Davao, sem er á eyjunni Mindanao, og á um 95 km dýpi. 

Rafmagnslaust varð í um 15 mínútur í bænum Jose Abad Santos skömmu eftir skjálftann. Lögreglustjórinn Glabynarry Murillo segir í samtali við AFP-fréttastofuna að engar fregnir hafi borist af tjóni. Aftur á móti leiddu jarðhræringarnar til þess að margir íbúar þustu út á götu. 

„Við drifum okkur einnig út því lögreglustöðin er í þriggja hæða húsi,“ segir Murillo. 

Eldfjalla- og jarðvísindastofnun Filippseyja segir að búast megi við eftirskjálftum en ólíklegt sé að tjón muni hljótast af skjálftunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert