Öllu lokað á tæplega milljón Norðmenn

Íbúar Óslóar og líklega einhverra hinna níu sveitarfélaganna flykktust í …
Íbúar Óslóar og líklega einhverra hinna níu sveitarfélaganna flykktust í áfengisútsölur nágrannasveitarfélagsins Bærum í dag eftir að ljóst varð að vínbúðir yrðu lokaðar að minnsta kosti fram til mánaðamóta í þeim sveitarfélögum sem nú sæta hvað hörðustum aðgerðum vegna „breska afbrigðis“ kórónuveirunnar. Ljósmynd/Ábendinganetfang VG

Í ávarpi norska heilbrigðisráðherrans Bent Høie úr sumarbústað sínum í Bjerkreim í Rogaland í morgun kynnti hann þjóðinni umfangsmiklar lokanir í Ósló og níu sveitarfélögum umhverfis höfuðborgina eftir að tveir íbúar í Nordre Follo, 30 kílómetra sunnan Óslóar, greindust með B.1.1.7, hið svokallaða „breska afbrigði“ kórónuveirunnar.

Íbúarnir greindust með afbrigðið 3. janúar og eru nú báðir látnir. Stjórnvöld leggja nú ofurkapp á að koma í veg fyrir að B.1.1.7-veiran dreifi sér út fyrir Nordre Follo og eru 60.000 íbúar sveitarfélagsins nú beðnir að fara ekki út fyrir mörk þess.

Afbrigðið stökkbreytta er þó ekki eingöngu að finna innan marka Nordre Follo, í dag greindu norskir fjölmiðlar frá því að þrjú tilfelli hefðu greinst í Agder-fylki auk þess sem fjöldi veirusmita hefur komið upp á örskömmum tíma á 25 umönnunarheimilum í Ósló þar sem 81 starfsmaður og 28 vistmenn hafa smitast og leikur grunur á að þar sé um B.1.1.7-afbrigðið að ræða vegna þess hve ört smitin hafa komið upp. Niðurstöðu rannsókna er nú beðið á meðan 171 starfsmaður heimilianna situr í sóttkví.

Neytum ýtrustu ráða

„Við gerum nú ströngustu ráðstafanir sem gerðar hafa verið síðan 12. mars í þessum tíu sveitarfélögum. Á nokkrum sviðum göngum við enn lengra en í mars. Við neytum nú ýtrustu ráða til að stöðva útbreiðsluna í þeirri von að ná yfirhöndinni skjótt og geta þá slakað á ströngustu reglunum,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu í morgun.

Frá og með hádegi í dag, laugardag, til og með 31. janúar til að byrja með giltu eftirfarandi reglur í sveitarfélögunum Ósló, Enebakk, Ås, Vestby, Nesodden, Indre Østfold, Moss, Frogn, Våler og Nordre Follo þar sem alls eru heimili tæplega einnar milljónar íbúa:

 • Allar samkomur utan heimila eru bannaðar, innan- sem utandyra, að undanskildum jarðarförum.
 • Allir sem geta unnið heima hjá sér skulu gera það. Vinnuveitendur geri ráðstafanir til að gera þetta mögulegt.
 • Allar búðir verða lokaðar að undanskildum matvöruverslunum, apótekum og bensínstöðvum.
 • Áfengisverslanir verða lokaðar.
 • Öll sala áfengis á veitingahúsum er bönnuð (hefur verið það í Ósló frá 9. nóvember).
 • Iðkun hópíþrótta er bönnuð, hvort tveggja barna og fullorðinna.
 • Veitingahús verða lokuð að undanskildum skyndibitastöðum þar sem matur er sóttur og farið með hann út.
 • Líkamsræktarstöðvar, sundstaðir, heilsulindir og sundlaugar á hótelum loka (líkamsræktarstöðvar í Ósló hafa verið lokaðar frá 9. nóvember).
 • Húsnæði trúfélaga verða lokuð nema vegna jarðarfara.
 • Keiluhallir, spilasalir, bingóhúsnæði og sambærilegir staðir verða lokaðir.
 • Bókasöfn verða lokuð.
 • Söfn verða lokuð.
 • Kvikmyndahús, leikhús og tónleikastaðir verða lokuð.
 • Aðrir opinberir staðir sem hýsa hvers kyns menningarstarfsemi verða lokaðir.

Leik- og barnaskólar verða á svokölluðu rauðu viðbúnaðarstigi en þó starfandi. Sóttvarnayfirvöld einstakra sveitarfélaga geta lokað þeim skólastigum bjóði þeim svo við að horfa. Framhaldsskólar skulu notast við fjarnám í vikunni og einnig iðnskólar og skólar á háskólastigi.

Auk þessara reglna gilda tilmæli keimlík þeim sem áður hafa gilt um að forðast allar heimsóknir, fólk sé ekki á ferðinni að nauðsynjalausu og grímur séu notaðar alls staðar þar sem ekki er hægt að halda öruggu tveggja metra bili milli fólks.

Ósló er eitt þeirra tíu sveitarfélaga með samtals tæplega milljón …
Ósló er eitt þeirra tíu sveitarfélaga með samtals tæplega milljón íbúa sem frá og með hádegi í dag sæta hörðustu lokunaraðgerðum norskra stjórnvalda síðan 12. mars í fyrra þegar skórinn tók fyrst verulega að kreppa í kórónuveirufaraldrinum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Stjórnvöld munu, að fengnum tillögum Lýðheilsustofnunar Noregs og sóttvarnayfirvalda, meta stöðuna í sveitarfélögunum tíu um mánaðamótin með tilliti til þess hvort ástæða teljist til að framlengja gildistíma reglnanna sem tóku gildi í dag.

Þá berast þær fréttir frá Svíþjóð, gegnum TT-fréttastofuna þarlendu, að Svíar hyggist á næstu dögum loka landamærunum við Noreg á meðan ekki er meira vitað um umfang og útbreiðslu B.1.1.7-veirunnar í Noregi. Var þetta haft eftir sænska innanríkisráðherranum Mikael Damberg í dag, en eftir því sem sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá hafa 55 tilfelli nýju veirunnar þegar greinst í Svíþjóð.

NRK
VG
TV2
Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina