Réttarhöldum frestað þar til í byrjun febrúar

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og Melania Trump, fyrrum forsetafrú. Mögulegt …
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og Melania Trump, fyrrum forsetafrú. Mögulegt er að Trump fái ekki að bjóða sig aftur fram til forseta. AFP

Réttarhöld öldungadeildar Bandaríkjaþings yfir Donald Trump munu hefjast í annarri viku febrúarmánaðar, að því er fram kemur í máli Chucks Schumers, leiðtoga meirihluta demókrata í öldungadeildinni.

Trump var ákærður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings skömmu eftir áramót fyrir að hafa hvatt til óeirða sem leiddu til árásarinnar á bandaríska þinghúsið hinn 6. janúar síðastliðinn. Fari svo að tveir þriðju hlutar öldungadeildarinnar ákveði að sakfella Trump má hann ekki bjóða sig aftur fram til embættis innan bandaríska alríkisins.

„Umræður hefjast í vikunni sem hefst á 8. febrúar, eða um leið og öll tilskilin skjöl hafa verið útbúin,“ sagði Schumer við þingmenn öldungadeildarinnar í gær.

Réttarhöldunum verður þannig seinkað um tvær vikur til þess öldungadeildin geti fyrst sinnt brýnum erindum eins og að samþykkja skipun nýs forseta, Joes Bidens, í ráðherrastöður. Þá er einnig fyrirhugað að greiða atkvæði um mótvægisaðgerðir við kórónuveirunni.

Chuck Schumer.
Chuck Schumer. AFP
mbl.is