Handteknir vegna hótana í garð Frederiksen

Hún þarf að vera og verður tekin af lífi, var …
Hún þarf að vera og verður tekin af lífi, var skrifað á dúkkuna. AFP

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur handtekið þrjá vegna hótana í garð Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á mótmælum sem fram fóru í höfuðborginni í gær. Fjórða mannsins er leitað.

Söfnuður sem kallar sig Men in Black stóð fyrir mótmælum gegn ströngum samkomutakmörkunum í landinu og safnaðist fjöldi fólks saman í miðborg Kaupmannahafnar til að ljá málstaðnum stuðning sinn.

Hafði hópur mótmælenda komið fyrir dúkku með andliti forsætisráðherrans og kveikt í henni en á dúkkuna var hengt spjald með textanum „Hún þarf að vera og verður tekin af lífi“.

Men in Black, svartklædda mótstaðan, boðaði til mótmæla gegn sóttvarnaaðgerðum …
Men in Black, svartklædda mótstaðan, boðaði til mótmæla gegn sóttvarnaaðgerðum í gær. AFP

Í frétt TV2 segir að þeir handteknu sé karlmenn á aldrinum 30-34 ára. Þeir verða ákærðir fyrir brot gegn 113. grein hegningarlaga sem tekur á ógn við öryggi þingmanna, sem og brot gegn 266. grein sem tekur á hótunum.

Sem fyrr segir er fjórða mannsins en leitað, en í tilkynningu frá lögreglunni í Kaupmannahöfn segir að rannsókn málsins sé unnin í nánu samstarfi við leyniþjónustu dönsku lögreglunnar (PET).

Talið er að um þúsund manns hafi verið saman komnir á mótmælunum í gær, öllu fleiri en á sams konar mótmælum fyrir tveimur vikum en þá voru níu handteknir, fjórir í Kaupmannahöfn og fimm í Álaborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert