Sjóræningjar tóku yfir skip og drápu einn úr áhöfn

Einn úr áhöfn segir við tyrkneska fréttamiðla að nokkrir um …
Einn úr áhöfn segir við tyrkneska fréttamiðla að nokkrir um borð séu særðir. Ljósmynd/Reuters

Vopnaðir sjóræningjar drápu einn og rændu 15 öðrum um borð í tyrknesku flutningaskipi úti fyrir ströndum Nígeríu í dag. Þrír úr áhöfn skipsins sjá nú um að sigla skipinu sem er í eigu tyrknesks fyrirtækis. Ríkisútvarpið í Tyrklandi náði tali af einum úr áhöfninni sem sagði að margir væru særðir.

Flutningaskipið, Mozart, siglir undir fána Líberíu og hafði verið á leið frá borginni Lagos í Nígeríu til Höfðaborgar í Suður-Afríku. Nú hefur skipinu verið snúið af leið og stefnir á Gabon á vesturströnd Afríku.

„Ég veit ekkert hvert við erum að fara,“ sagði einn úr áhöfn við tyrkneska miðla. „Sjóræningjarnir klipptu á alla kapla, ratsjáin er það eina sem virkar,“ bætti hann við.

Erdogan Tyrklandsforseti ræddi símleiðis við þann sem nú stjórnar skipinu, en ekki kemur fram í fréttum AFP hvort þar sé átt við sjóræningjanna eða einhvern úr áhöfn skipsins.

Starfsmenn skrifstofu forsetans segja hann fylgjast grannt með þróun mála.

Sjóræningjar virðast vera á þó nokkurri siglingu en sjóránum hefur fjölgað á heimsvísu síðan árið 2019 um allt að 20%.

mbl.is