Forseti Mexíkó með Covid-19

Andres Manuel Lopez Obrador er hann flutti ræðu í gær.
Andres Manuel Lopez Obrador er hann flutti ræðu í gær. AFP

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, hefur tilkynnt að hann hafi smitast af kórónuveirunni. Hann segist ekki vera með mikil einkenni.

„Mér þykir leitt að greina frá því að ég er smitaður af Covid-19. Einkennin eru lítil en ég hef þegar gengist undir læknismeðferð,“ sagði Lopez Obrador, sem er 67 ára, á samfélagsmiðlum.

„Eins og alltaf þá er ég jákvæður. Við komumst í gegnum þetta saman,“ sagði hann.

Vinstrisinnaði popúlistinn hefur sjaldan sést með grímu á meðal almennings, þar á meðal á daglegum blaðamannafundum sínum. Þrátt fyrir faraldurinn hefur hann haldið áfram að sinna flestum hefðbundnum skyldum sínum.

Lopez Obrador hefur haldið áfram að ferðast til hinna ýmsu staða í Mexíkó. Í gær heimsótti hann ríkið San Luis Potosi í norðurhluta landsins.

Hann var gagnrýndur fyrir að vera lengi að koma á útgöngubanni þegar faraldurinn var að hefjast og fyrir að halda fjöldafundi, heilsa stuðningsmönnum sínum með handabandi og faðma þá.

Lopez Obrador fékk hjartaáfall árið 2013, auk þess sem hann glímir við háþrýsting og var hann því í áhættuhópi vegna Covid-19.

Á meðal annarra þjóðarleiðtoga sem hafa smitast af veirunni eru Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert