Framseld til Ástralíu sökuð um barnaníð

Malka Leifer sést hér í lögreglufylgd.
Malka Leifer sést hér í lögreglufylgd. AFP

Ísraelsk yfirvöld framseldu Malka Leifer, fyrrverandi skólastjóra í skóla fyrir strangtrúaða gyðinga, en hún er sökuð um að hafa beitt tugi nemenda kynferðislegu ofbeldi í Ástralíu.

Dómsmálaráðuneyti Ísraels staðfesti framsalið í dag en deilur hafa staðið yfir um framsalið á milli Ástralíu og Ísrael í sex ár.

Samkvæmt fréttum ísraelskra fjölmiðla fór hún í flug snemma í morgun, nokkrum klukkustundum áður en til stóð að loka Ben Gurion-flugvellinum vegna Covid-19.

Leifer, sem er ísraelsk, er sökuð um barnaníð þegar hún starfaði sem kennari og skólastjóri fyrir strangtrúaða gyðinga í Melbourne. Í áströlskum fjölmiðlum kemur fram að hún eigi yfir höfði sér ákæru fyrir 74 kynferðisbrot gagnvart stúlkum sem voru nemendur hennar.  

Eftir að ásakanir gagnvart henni komu fram í Ástralíu árið 2008 yfirgáfu Leifer og fjölskylda hennar landið og fluttu í Emmanuel-landtökubyggðirnar á Vesturbakkanum.

Í desember hafnaði Hæstiréttur Ísraels lokaáfrýjun lögfræðinga hennar vegna brottvísunarinnar. Meira en sex ár eru liðin síðan beiðnin var lögð fram í héraðsdómi í Jerúsalem og hann úrskurðaði hún yrði framseld. Síðan þá hefur hvert einasta mögulega skref verið stigið í að áfrýja niðurstöðunni til að koma í veg fyrir framsalið. Jafnvel á grundvelli andlegra veikinda segir í niðurstöðu Hæstaréttar. 

Ísraelska dagblaðið Haaretz vísar í dag í leiðtoga sambands gyðinga í Ástralíu, Jeremy Leibler, en hann gagnrýnir biðina harðlega. „Að Leifer var leyft að komast undan réttvísinni svo lengi er skrípaleikur,“ segir Leibler. Á sama tíma og það er léttir að ísraelskt réttarkerfi bregst loks við þá er óásættanlegt hvað þetta hefur tekið langan tíma segir hann. 

Þegar vísa átti Leifer úr landi á tímabilinu 2014 til 2016 var hún lögð inn á geðdeild og læknar úrskurðuðu að hún væri ekki fær um að koma fyrir rétt. En einkaspæjari fylgdist með henni með leynd og tók myndir af Leifer þar sem hún fór í búðir og banka á meðan hún átti að vera í geðdeild. Hún virtist lifa ósköp venjulegu lífi samkvæmt rannsókn einkaspæjarans. 

Þetta varð til þess að ísraelsk yfirvöld hófu rannsókn á því hvort hún gerði sér upp andleg veikindi til að komast hjá framsali. Var hún því handtekinn í febrúar 2018. 

Í maí var það niðurstaða héraðsdóms í Jerúsalem að þó svo Leifer ætti við andleg vandamál að stríða væru þau ekki þannig að hún teldist veik á geði og ósakhæf.

Í samfélögum Hasída eru börn alin upp án aðgangs að sjónvarpi, neti og útvarpi en mega lesa dagblöð gyðinga og tímarit. Eftir átta ára aldri er strákum og stelpum haldið aðskildum og engin kynfræðsla fer fram í skólum þeirra.  

Leifer er átta barna móðir en hún er sökuð um margvísleg kynferðisbrot gagnvart þremur systrum.

Hér er hægt að lesa nánar um málið

mbl.is