Gagnrýnir þjóðir sem vilja komast fram fyrir

Ensk kona fær bóluefni frá AstraZeneca.
Ensk kona fær bóluefni frá AstraZeneca. AFP

Yfirmaður breska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca, sem hefur búið til bóluefni við Covid-19 ásamt Oxford-háskóla, hefur gagnrýnt aðferðir sumra þjóða við að reyna að komast fram fyrir í röðinni til að nálgast bóluefni.

Pascal Soriot, yfirmaður AstraZeneca, gagnrýndi einnig skort á alþjóðlegum undirbúningi vegna banvæns kórónuveirufaraldurs er hann talaði á rafrænum fundi á viðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss.

Hann sagði að tilkomu bóluefna við Covid-19 hefði mátt líta á sem mikið fagnaðarefni „en því miður varð það ekki vegna þess að það var dálítið af „ég fyrst“-hegðun,“ sagði Soriot.

„Frá alþjóðlegu sjónarhorni hefðum við átt að vera betur undirbúin fyrir þennan faraldur,“ bætti hann við.

Soriot bætti þó við að hlutirnir væru að breytast og að alþjóðlegt samstarf hefði aukist vegna veirunnar, sem hefur orðið yfir tveimur milljónum manna að bana.

Hann sagði forvarnir afar mikilvægar og nauðsynlegt væri að koma fljótt auga á nýjar tegundir af veirum og meðferð við þeim í framhaldinu. Nefndi hann einnig að á meðal iðnvæddustu ríkjanna fari aðeins 3% þess sem eytt er í heilbrigðismál í forvarnir.  

mbl.is