Pútín afneitar meintri hallareign

Skot úr myndbandi Navalnys þar sem meint höll Putins við …
Skot úr myndbandi Navalnys þar sem meint höll Putins við Svarta hafið sést. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, tók fyrir það að hann ætti stóra lúxuseign við Svartahafið eins og Alexei Navalní, andstæðingur hans, heldur fram. Hin meinta eign á að vera um 1,35 milljarða bandaríkjadollara virði eða sem samsvarar tæplega 240 milljörðum króna. 

Navalní gaf nýlega út myndband þar sem hann fjallar um rannsókn sína á auðæfum Pútíns. Þar nefnir hann glæsihýsið. Myndbandið hefur þegar fengið yfir 86 milljón áhorf. 

Pútín sagði í dag við rússneska stúdenta að ekkert af eignum sem sjá má á myndbandinu tilheyrði honum eða fjölskyldu hans. 

Sjá má skot úr myndbandi Navalnís í eftirfarandi umfjöllun The Guardian: 

Handtöku Navalnís var mótmælt um allt Rússland um helgina. Dómstólar hafa dæmt mótmælendur sem handteknir voru til skammrar fangelsisvistar vegna þátttöku í mótmælunum. 

Þá hefur utanríkisráðuneytið sakað bandaríska diplómata um að hvetja Rússa til þátttöku í mótmælunum. Stuðningsfólk Navalnís hefur hvatt til áframhaldandi mótmæla á sunnudaginn áður en mál hans verður tekið fyrir í réttarsal. Navalní hefur verið helsti gagnrýnandi Kremlar undanfarin misseri. Hann á nú á hættu að verða dæmdur í allt að þriggja ára fangelsi. 

Navalní var handtekinn fyrir rúmri viku þegar hann sneri aftur til Rússlands frá Þýskalandi, þar sem hann hafði verið að jafna sig eftir að hafa komist í tæri við eitur sem tengt er við rússnesku leyniþjónustuna.

mbl.is