Smitaðist væntanlega á sóttkvíarhótelinu

AFP

Smitið sem greindist á Nýja-Sjálandi um helgina er af afbrigðinu sem fyrst greindist í Suður-Afríku. Um er að ræða bráðsmitandi afbrigði kórónuveirunnar en ekki hafði greinst nýtt smit á Nýja-Sjálandi í tvo mánuði þegar þetta smit kom upp um helgina.

Vegna smitsins hafa áströlsk yfirvöld fellt úr gildi heimild til að ferðast á milli ríkjanna tveggja án þess að fólk þurfi að fara í sóttkví. Um tímabundna ákvörðun er að ræða sem gildir í 72 klukkustundir hið minnsta.

Um er að ræða 56 ára gamla nýsjálenska konu sem nýlega sneri aftur heim frá Evrópu. Hún greindist með smit á laugardag, tíu dögum eftir að hún lauk tveggja vikna sóttkví.

Aðeins 25 hafa látist af völdum Covid-19 á Nýja-Sjálandi og 1.927 smit verið staðfest. Alls eru íbúar landsins 5 milljónir. Þetta smit er fyrsta samfélagssmitið síðan um miðjan nóvember.

Að sögn heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands, Chris Hipkins, eru taldar líkur að konan hafi smitast af ferðafélaga. Heilbrigðisráðherra Ástralíu, Greg Hunt, segir að þetta veki mikinn ugg og vegna þess hve bráðsmitandi þetta afbrigði er hafi ríkisstjórnin ákveðið að loka fyrir „ferðakúlu“ ríkjanna tveggja í að minnsta kosti þrjá sólarhringa.

Hunt hvetur Nýsjálendinga sem eiga bókað flug til Ástralíu næstu þrjá daga að endurskoða hvort þeir þurfi að ferðast. Þeir þurfi að fara í sóttkví á hóteli líkt og aðrir ferðamenn sem koma til landsins í tvær vikur. 

Talið er að konan hafi smitast af manneskju sem var á sömu hæð á hótelinu þar sem hún dvaldi í sóttkví. Sú manneskja greindist með smit tveimur dögum áður en konan yfirgaf hótelið að lokinni tveggja vikna sóttkví og tveimur sýnatökum. 

Konan ferðaðist víða um Norðureyju, í nágrenni Auckland, eftir að hafa losnað úr sóttkví. Hún fann fyrir einkennum í nokkra daga áður en hún fór í skimun. Tveir einstaklingar sem eru henni nákomnir, þar á meðal eiginmaður hennar, fengu neikvæða niðurstöðu úr skimun og telur sóttvarnalæknir Nýja-Sjálands að væntanlega hafi þeir ekki smitast.

„Hún kvartaði ekki um einkenni tengd öndunarfærðum. Þetta voru miklu frekar vöðvaverkir þannig að hún hefur kannski ekki dreift veirunni mikið,“ segir sóttvarnalæknir. 

mbl.is