Varð hugfangin af Íslandi

Veröld sem var. Gunhild við Tjörnina í Reykjavík í fyrstu …
Veröld sem var. Gunhild við Tjörnina í Reykjavík í fyrstu Íslandsheimsókn sinni sumarið 1983. Áhrifin af landi og þjóð voru svo djúpstæð að hún segir fyrstu upplifun sína af Íslandi enn þann dag í dag stærstu stund lífs síns. Ljósmynd/Aðsend

Á föstudaginn fyrir rúmri viku lagði Gunhild Kværness, málfræðingur og aðstoðarprófessor í norsku við Háskólann í Hamar í Innlandet-fylki, norður af Ósló, fram doktorsritgerð sína sem fjallar um viðhorf ungmenna gagnvart norskum framburðarmállýskum með áherslu á fjórar mismunandi mállýskur, enda óvarlegt að færast öllu meira í fang í landi þar sem engum hefur enn tekist að slá tölu á fjölda málafbrigða svo hengja megi hatt sinn á.

Gunhild, sem verður nefnd fornafni í þessu viðtali að íslenskum sið, enda mikill Íslandsvinur og talar nánast reiprennandi íslensku, sendi árið 2014 frá sér bókina Leve dialekten – En språkreise, eða Lifi mállýskan – Ferðalag um málið, þar sem hún ræddi við 14 þjóðþekkta Norðmenn um viðhorf þeirra til talmálsins auk þess að reyna að „lauma inn einni lítilli sögu frá Íslandi í hverjum kafla,“ en Gunhild, sem einnig er menntaður leikari frá Leiklistarháskóla ríkisins í Ósló, bjó í tvígang á Íslandi, árin 1986 – '88 og 2000 – 2002, við íslenskunám, kennslu, þýðingar, eftirminnilegt starf á umönnunarheimilinu Grund og margt fleira.

Íslenskur kærasti varð kveikjan

Áður en að doktorsverkefninu kemur, og ekki síður athyglisverðu riti Gunhild frá árinu 1996, Blote kan ein gjere om det berre skjer i løynd, eða Skyldu menn blóta á laun, ef vildu, þar sem hún fjallar um Kristinna laga þátt Grágásar og skoðar tengsl íslenskra og norskra laga, langar blaðamann að forvitnast um Íslandsævintýri Gunhild í tveimur þáttum með rúmlega tíu ára millibili.

„Fyrst þegar ég kom til Íslands kom ég sem leiðsögumaður, þá átti ég íslenskan kærasta og var mjög spennt að heimsækja landið,“ segir Gunhild þar sem við sitjum upp úr hádegi, ískaldan laugardag í janúar, á pizzastaðnum Il Teatro í vinalega smábænum Hamar, rúma 100 kílómetra norður af höfuðborginni. Viðtalið fer fram á norsku af einskærri tillitsemi við viðmælandann, en símtal nokkrum dögum áður alfarið á íslensku sem Gunhild hefur afar gott vald á, jafnvel beygingum nafnorða.

Með hóp norskra ferðamanna í ökuferð um Ísland sumarið 1983. …
Með hóp norskra ferðamanna í ökuferð um Ísland sumarið 1983. Oft þurfti að gera hlé á akstrinum og verka framlag rammíslenskra malarvega af gluggum svo hægt væri að tala um útsýnisferð. Ljósmynd/Aðsend

Kærastinn, sem Gunhild kynntist í Ósló árið 1981, var Magnús H. Guðjónsson sem nam þar dýralækningar. Þessi fyrsta Íslandsheimsókn átti sér stað snemma á níunda áratugnum, árið 1983 þegar hún kom sjóleiðina til Seyðisfjarðar með hóp norskra ferðamanna, þó ekki sem eiginlegur leiðsögumaður, heldur „hópstjóri“ segir viðmælandinn á lýtalausri íslensku. Samkvæmt íslenskum lögum urðu sjálfir fararstjórarnir að vera íslenskir. „Þegar við komum til Seyðisfjarðar kom íslenskur fararstjóri inn í rútuna og ég settist bara hjá farþegunum,“ rifjar Gunhild upp.

Féll í stafi

Fyrstu tengslin við Ísland höfðu djúpstæð áhrif á Gunhild sem segist hafa orðið fyrir hreinni uppljómun. „Við ókum til Lauga og gistum á Edduhótelinu þar og upplifunin var ólýsanleg, bjart allan sólarhringinn og náttúran stórfengleg, en á allt annan hátt en hérna í Noregi. Þessi fyrsta heimsókn mín til Íslands er enn þann dag í dag mín stærsta upplifun í lífinu,“ segir Gunhild dreymin. „Um jólin var mér svo boðið til Íslands þar sem ég hélt jól með Magnúsi og fjölskyldu hans sem var ógleymanlegt, mjög ólíkt norsku jólahaldi.“

Ískaldur laugardagur í janúar 2021 á Domkirkeodden í hinu ægifagra …
Ískaldur laugardagur í janúar 2021 á Domkirkeodden í hinu ægifagra bæjarfélagi Hamar rúma 100 kílómetra norður af Ósló. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hún hafi þá þegar ákveðið að hún yrði að fá að upplifa búsetu á Íslandi auk þess að læra tungumálið, en Gunhild hafði þá lagt stund á nám í norskri málfræði og bókmenntum við Háskólann í Ósló sem hún svo gerði hlé á og lauk þriggja ára leiklistarnámi áður en hún venti kvæði sínu í kross, skráði sig í íslensku fyrir erlenda stúdenta, fékk herbergi í kjallaranum á Nýja-Garði og steig um borð í nýja tilveru.

„Það var nú meira partýið þar stundum,“ rifjar Gunhild upp, „eða alla vega um helgar. Við nemendurnir frá Norðurlöndunum vorum líka mikið í Norræna húsinu. Þar voru mjög oft fyrirlestrar og alls konar norrænar menningaruppákomur sem við sóttum mikið og þar var hægt að fá „heitt súkkulaði með rjóma“,“ rifjar Gunhild upp og nefnir drykkinn á íslensku með óaðfinnanlegum framburði. Hún bætir því við að sunnudagarnir á Nýja-Garði hafi nú ekki alltaf verið skemmtilegasti tími vikunnar.

„Stundum var veðrið þannig að maður hafði sig hreinlega ekki í að rölta niður í bæ og þá var upplagt að fara bara yfir götuna og hitta aðra nemendur frá Skandinavíu í Norræna húsinu, við upplifðum okkur eiginlega öll frá einu og sama landinu þegar við vorum á Íslandi,“ segir Gunhild og hlær yfir minningunni.

Hraðbyr í menningarlífið

Hún ber náminu við HÍ nokkuð vel söguna en játar fúslega að mesta íslenskunámið hafi þó í raun átt sér stað í félagslífinu, því Gunhild rann eins og bráðið smjör inn í helgustu vé íslensks skemmtanasamfélags, nætur- og menningarlífs. Var það bara eins og að skreppa á pósthúsið fyrir 26 ára gamlan norskan nemanda í íslensku fyrir erlenda stúdenta?

„Já, reyndar, en að því er þó formáli,“ svarar Gunhild og glottir við tönn. „Ég hafði í raun heilmikil tengsl við Ísland áður en ég flutti þangað og hélt góðu sambandi við fjölskyldu Magnúsar þótt sambandi okkar hafi þá verið lokið,“ segir hún. Tengslanetið var þó enn víðtækara, þökk sé meðal annars leiklistarnáminu þótt Gunhild hafi raunar ákveðið að því loknu að hún hefði engan áhuga á að starfa á þeim vettvangi.

Í kaffispjalli með Bryndísi Bragadóttur leikkonu í Íslandsheimsókn árið 1995. …
Í kaffispjalli með Bryndísi Bragadóttur leikkonu í Íslandsheimsókn árið 1995. Gunhild kynntist Bryndísi á leiklistarhátíð í Gautaborg vorið 1985 og fylgdi henni um lendur reykvísks menningar- og listalífs eftir að til Íslands var komið árið eftir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sótti einu sinni leiklistarhátíð í Gautaborg og kynntist þar Bryndísi Bragadóttur leikkonu. Þegar ég svo kom til Íslands tók hún á móti mér og kynnti mig fyrir fólki í hennar kreðsum í Reykjavík. Þar leiddi svo eitt af öðru, þarna var ég auðvitað nýútskrifuð úr leiklistarháskóla í Ósló og þannig atvikaðist það að Sveinn Einarsson [leikstjóri, rithöfundur og þjóðleikhússtjóri] bauð mér sem gestanemanda í ljóðalestrartíma sína í Leiklistarskólanum,“ segir Gunhild af kynnum sínum við leikhúskima íslensks menningarlífs.

„Þú getur rétt ímyndað þér hversu mörgu spennandi fólki ég kynntist þarna. Gegnum þau tengsl komst ég einnig í kynni við Vísnavini auk þess sem ég eignaðist mjög góða vini í Önnu Pálínu [Árnadóttur heitinni, söng- og dagskrárgerðarkonu] og Aðalsteini Ásberg [Sigurðssyni, rithöfundi og tónlistarmanni] og Herdísi Hallvarðsdóttur og Gísla Helgasyni [tónlistarfólki]. Þau mættu öll fjögur þegar ég hélt upp á fertugsafmælið mitt á Íslandi löngu seinna,“ segir Gunhild og vísar til Íslandstímabils síns hins síðara.

Í tónleikaferð með Bubba og Megasi

Tengslanetið og vinskapurinn sem Bryndís opnaði dyrnar að var þó ekki það eina, Gunhild átti auðvelt með að kynnast Íslendingum í Ósló og í þann hóp féll Guðrún Pétursdóttir, lífeðlisfræðingur og síðar forsetaframbjóðandi, sem var við doktorsnám í taugalífeðlisfræði við Háskólann í Ósló á níunda áratugnum og varð þeim Gunhild vel til vina.

„Ég kalla hana stóru systur mína, hún er akkúrat tíu árum eldri en ég – og tíu árum klárari,“ bætir Gunhild við sposk á svip. „Guðrún var mjög örlát á að lána mér íslensku vinina sína. Hún kynnti mig til dæmis fyrir Megasi og fjölmörgu öðru spennandi fólki og það var nú aldeilis upphefð þegar Bubbi Morthens og Megas buðu mér með sér í tónleikaferðalag norður á land 1987.“

Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Skytturnar, var frumsýnd laugardaginn 14. febrúar …
Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Skytturnar, var frumsýnd laugardaginn 14. febrúar 1987. Gunhild ræðir hér við Magnús Þór Jónsson, Megas, í frumsýningarteiti að kvöldi dags. Ljósmynd/Aðsend

Norðmaðurinn segist hafa kastað sér út í að tileinka sér íslenskuna frá fyrsta degi, lært af sjónvarpinu og vinum auk þess að stunda háskólanámið. „Auðvitað eru beygingarnar erfiðastar, við erum ekki með nein föll í norsku og þetta þótti mér mikil áskorun. Maður reyndi oft að svindla sér fram hjá því að beygja með því að hagræða bara orðaröðinni þannig að nafnorð væru í nefnifalli,“ segir Gunhild og hlær hjartanlega að minningunni um vandræðalegar búðaferðir og fleiri uppákomur í árdaga Íslandsdvalar hennar.

Ekki dugði þó að láta smámuni á borð við beygingar nafnorða hindra óskoraða þátttöku í samfélaginu, Gunhild skirrðist ekki við að leggja til atlögu við íslenskan vinnumarkað og kenndi norsku við Námsflokka Reykjavíkur auk þess að kenna grunn- og framhaldsskólanemendum málið, þeim sem höfðu búið í Noregi og fengu að leggja stund á norsku í stað hefðbundins dönskunáms.

Ráðskonan á Grund

Einnig kenndi Gunhild norsku við HÍ undir stjórn Oskar Vistdal sem gegndi stöðu lektors í norsku við skólann um sjö ára skeið. „Samtímis því var hann kennarinn minn í forníslensku. Oskar er ákaflega duglegur maður og hjálpaði mér mikið. Og reyndar gerir hann það enn, hann er nýbúinn að prófarkalesa doktorsritgerðina mína,“ segir Gunhild sem lagði verkið fram daginn áður en viðtalið var tekið, eftir þriggja ára yfirlegu.

Níundi áratugurinn var ekki allur í fókus og það er …
Níundi áratugurinn var ekki allur í fókus og það er þessi mynd ekki heldur en fær að vera með sagnfræðinnar vegna. Bubbi og Megas buðu Norðmanninum unga með sér í tónleikaferðalag um Norðurland árið 1987 sem að hennar sögn var ógleymanleg upplifun. Ljósmynd/Aðsend

Vistdal hefur fengist mikið við þýðingar og meðal annars þýtt verk Gyrðis Elíassonar á norsku og hlotið hin virtu norsku Bastian-verðlaun fyrir störf sín við þýðingar. Að sögn Gunhild hitti Vistdal oftsinnis norska gesti sem komu í opinberar heimsóknir til Íslands, þar á meðal rithöfunda. „Við fórum þá oft með þá út og suður til að sýna þeim landið, meðal annars til Bessastaða.“

Með Oskar Vistdal, lektor í norsku við Háskóla Íslands, að …
Með Oskar Vistdal, lektor í norsku við Háskóla Íslands, að sýna norskum gestum Bessastaði. „Oskar er ákaflega duglegur maður og hjálpaði mér mikið. Og reyndar gerir hann það enn, hann er nýbúinn að prófarkalesa doktorsritgerðina mína.“ Ljósmynd/Aðsend

Ekki skorti fjölbreytnina því Gunhild starfaði um tíma á umönnunarheimilinu Grund við Hringbraut þar sem vistfólki þótti félagsskapur þessa unga Norðmanns huggulegur þótt einhverjir væru tungumálaörðugleikarnir í fyrstu. „Það gekk nú svona og svona í byrjun. Einhvern tímann var ég næstum búin að gefa einni eldri dömu röng lyf. Hún áttaði sig á undan mér og sagði „Heyrðu, ég á ekki að fá neinar bleikar pillur!“,“ rifjar hún upp og kveðst hafa þótt vistin ágæt á Grund.

Sól tér sortna. Ungur leiðsögumaður við Geysi sumarið 1983.
Sól tér sortna. Ungur leiðsögumaður við Geysi sumarið 1983. Ljósmynd/Aðsend

„Svo sótti ég um á auglýsingastofu í Reykjavík man ég, og það var nú dálítið fyndið skal ég segja þér. Mér datt í hug að þar gæti þurft þýðanda sem réði við skandinavísk mál og íslensku, en nei, það var nú ekki. Sá sem talaði við mig spurði mig hins vegar hvort ég væri góð að teikna og hvort ég gæti hugsað mér að starfa sem auglýsingateiknari,“ segir Gunhild frá og hlær við raust. Slíkur frami hafi sko ekki verið á hennar teikniborði.

Líður að heimför

Fyrra búsetutímabili Gunhild á Íslandi lauk árið 1988 eftir tveggja ára íslenskunám og sneri hún þá heim til Óslóar. „Dagný Kristjánsdóttir, sem þá var lektor við Háskólann í Ósló, staðfesti að kunnátta mín í íslensku eftir dvölina og námið á Íslandi væri það góð að ég fékk það metið sem það sem þá hét islandsk grunnfag við skólann í Ósló og taldist hafa lokið því.“

Hún fékkst einkum við kennslu næstu árin, lauk cand.philol.-gráðu í norsku árið 1995, kenndi um tíma við Árósaháskóla í Danmörku, en einnig við tvo háskóla í Ósló auk þess að stofna eigin tungumálaskóla þar sem hún kenndi útlendingum norsku, meðal annars Kristni F. Árnasyni, sendiherra Íslands í Ósló árin 1999 – 2003.

Gunhild rak eigin tungumálaskóla í Ósló árin 1997 til 2000 …
Gunhild rak eigin tungumálaskóla í Ósló árin 1997 til 2000 þar sem hún veitti útlendingum leiðsögn í norsku. Hér er einn „útlendingurinn“ í tíma hjá Gunhild, Kristinn F. Árnason, sendiherra Íslands í Noregi 1999 til 2003. Ljósmynd/Aðsend

Hún sneri svo aftur til Íslands aldamótaárið 2000, upphaflega vegna tilboðs Máls og menningar um að þýða rit Heimis Pálssonar, Lykill að Íslendingasögum, yfir á norsku, en sú heimsókn átti heldur betur eftir að lengjast í annan endann, allt til ársins 2002. Meira um það hér á eftir.

Gerðist á núll komma núll

Talið berst að muninum á Norðmönnum og Íslendingum, hugarfari, gildismati og þjóðarsál. Menningin er keimlík, fiskurinn í sjónum sá sami, samband frændþjóðanna gott. Engu að síður þykir þeim, sem hér skrifar, reginmunur á hugsunarhætti og grundvallarviðhorfum nágrannaþjóðanna.

Við eina af byggingum Háskólans í Hamar þar sem Gunhild …
Við eina af byggingum Háskólans í Hamar þar sem Gunhild kennir málvísindi. Hann heitir því virðulega nafni Inland Norway University of Applied Sciences upp á engilsaxnesku. Ljósmynd/Aðsend

Gunhild tekur heils hugar undir þetta og blaðamaður gleðst í laumi í hjarta sínu yfir að brugga ekki með sér eintómar ranghugmyndir.

„Sem Norðmanni finnst mér Íslendingar búa yfir ótrúlega miklu sjálfstrausti. Ég man þegar ég var að kenna íslenskum nemendum á síðasta ári í framhaldsskóla norsku. Við tókum tal saman og ræddum framtíðaráætlanir og -drauma. Þar settu nemendurnir markið svo hátt. Þeir ætluðu að verða kvikmyndaleikstjórar og sjávarlíffræðingar og ég veit ekki hvað. Og urðu það kannski. Í norskum framhaldsskólum hefði maður fengið gerólík svör. Nemendur láta sig kannski dreyma en það er ansi djúpt á því að þeir vilji segja það upphátt,“ segir Gunhild kímin.

„Ég man að ég hugsaði líka, fyrra tímabilið mitt á Íslandi, að í Noregi þætti það vandræðalegt að segjast dreyma um að skrifa bók. Á Íslandi er vandræðalegt að dreyma ekki um það,“ segir hún með áherslu á ekki.

Þá hafi ógnarhraður taktur menningarlífsins komið rækilega flatt upp á norska gestinn og fylgir hnyttin saga frá Íslandsdvöl Gunhild hinni síðari.

„Allt gerist svo rosalega hratt. Ég var einu sinni stödd á fyrirlestri Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar um Reisubók Guðríðar Símonardóttur sem þá var nýkomin út, þetta var 2001. Sú bók fannst mér frábær. Eftir fyrirlesturinn var boðið upp á umræður og ég vogaði mér að opna munninn, fór á höktandi og bjagaðri íslensku að líkja bókinni við miðaldaskáldsögur [norska rithöfundarins] Sigrid Undset.

Með Thor heitnum Vilhjálmssyni rithöfundi á ráðstefnu í Ósló snemma …
Með Thor heitnum Vilhjálmssyni rithöfundi á ráðstefnu í Ósló snemma á öldinni. Ljósmynd/Aðsend

Á meðan ég talaði tróð einhver hljóðnema upp í andlitið á mér. Þá kom í ljós að dagskráin var í beinni útsendingu í útvarpinu. Ég var rétt komin heim þegar síminn hringdi. Í honum var Úlfar Bragason, prófessor í bókmenntafræði, sem hafði heyrt í mér í útvarpinu og var þá einmitt að skipuleggja ráðstefnu um Laxness, Tolkien og Undset og vildi vita hvort ég gæti hugsað mér að flytja þar fyrirlestur um Undset. Sem ég svo gerði. Þetta gerðist allt bara á núll komma núll,“ segir Gunhild frá og hljómar enn sem steini lostin, tuttugu árum síðar.

Njálsbrenna í leigubíl

Ríkulegur menningar- og bókmenntaáhugi íslensku þjóðarinnar hefur einnig orðið gestinum umhugsunarefni, enda auga hans glöggt sé mark takandi á orðatiltækjum.

„Ég hélt alltaf góðu sambandi við norska sendiráðið og var …
„Ég hélt alltaf góðu sambandi við norska sendiráðið og var eitt sinn beðin að lesa upp ljóð í Fossvogskirkjugarði 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna. Ég valdi ljóðið „17. maí 1940“ eftir Nordahl Grieg og man hve vel viðeigandi mér þóttu þessar línur á Íslandi: „Vi er så få her i landet, hver falden er bror og ven.“.“ Ljósmynd/Aðsend

„Ég man að ég sat einhvern tímann í leigubíl með nokkrum öðrum útlendingum, við vorum að koma af bókmenntakvöldi og vorum í hrókasamræðum um túlkun á einhverju sem sagt var í Njálu og hafði verið til umræðu á ráðstefnunni. Sitt sýndist hverju okkar og rökrætt var af kappi. Þá sneri leigubílstjórinn sér að okkur og fór að leiðrétta okkur: „Nei nei, þið misskiljið þetta alveg, það sem Gunnar átti við þegar hann sagði þetta við Njál var...“ ég man ekkert hvaða atriði þetta var í Njálu en bílstjórinn varð svo reiður yfir okkar túlkun að hann ók næstum út af,“ segir Gunhild og er bráðskemmt yfir minningunni um þessa litlu Njálsbrennu í leigubílnum á Íslandi.

Vinnustofan í húsi Máls og menningar þar sem Gunhild þýddi …
Vinnustofan í húsi Máls og menningar þar sem Gunhild þýddi bók Heimis Pálssonar, Lykill að Íslendingasögum, yfir á norsku um aldamótin. Ljósmynd/Aðsend

Eins og fyrr segir flutti Gunhild til Íslands árið 2000, upphaflega vegna tilboðs Máls og menningar um að taka að sér þýðingu bókar Heimis Pálssonar. „Ég ákvað að taka þessu tilboði og ákvað fljótlega að hentugra væri að vinna þetta verkefni í Reykjavík en Ósló. Forlagið bjó svo um hnútana að ég fékk stúdíóíbúð í sama húsi sem var alveg einstakt,“ segir Gunhild frá.

Fóru leikar svo að hún seldi íbúð sína i Majorstuen-hverfinu í Ósló og keypti hálfa fimmtu hæðina í húsi Máls og menningar, þar á meðal Bröttugötusalinn, fyrrverandi fundarsal Kommúnistaflokks Íslands, og íbúð sem áður hafði tilheyrt sendiráði Austur-Þýskalands. Þessar vistarverur leigði Gunhild út. „Ég keypti hálfa fimmtu hæðina í húsinu árið 2001 og fékk allar mínar eigur sendar frá Ósló til Íslands, bókasafn og allt saman,“ rifjar Gunhild upp, en þýðingarverkefnið fyrir Mál og menningu varð upphafið að tveggja ára búsetu hennar hér á landi.

„Ég varð hrifin af ljóðum Tómasar, hann orti svo mikið …
„Ég varð hrifin af ljóðum Tómasar, hann orti svo mikið um borgarlífið, ekki bara stórbrotna náttúru. Ég varð líka stórhrifin af plötunni Fagra veröld sem kom út nokkru áður, þar sem Egill Ólafsson og Guðrún Gunnarsdóttir sungu ljóð Tómasar.“ mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Svo sem minnst var á í upphafi sendi Gunhild frá sér bókina Leve dialekten – En språkreise árið 2014 þar sem finna má mikla Íslandstengingu þrátt fyrir að meginefnið snúist um samtöl við þjóðþekkta Norðmenn og viðhorf þeirra til talmálsins. Eins og doktorsritgerð hennar ber einnig glöggt vitni um eru hinar ótalmörgu staðbundnu framburðarmállýskur Noregs Gunhild hugleiknar, hvort tveggja sem rannsóknarefni og almennt áhugamál.

Í bókinni segir hún litla en fróðlega sögu af tveimur iðnaðarmönnum, rafvirkja og smið, sem komu að standsetningu litla fasteignaveldisins á fimmtu hæðinni í húsi Máls og menningar. „Ég þekkti þá báða orðið og vissi að báðir voru frá eða höfðu búið í Hrútafirði. Nokkur aldursmunur var þó á þeim og ég réð af tali þeirra að þeir vissu ekki af þessum sameiginlega uppruna sínum.

Svo einhvern tímann þegar við erum að ræða standsetninguna á íbúðinni segi ég við þá „Afsakið, en vitið þið ekki að þið eruð báðir frá Hrútafirði?“ Þeir litu á hvor annan í forundran og jú jú, þetta var rétt. Svo fóru þeir að ræða saman og þá kom í ljós að skammt hafði verið á milli heimila þeirra, sá eldri var fluttur á brott þegar hinn fæddist, en þeir þekktu samt fjölda fólks sameiginlega.

Erla Dürr heitin, móðir Magnúsar, kærasta Gunhild í fyrstu Íslandsheimsókninni. …
Erla Dürr heitin, móðir Magnúsar, kærasta Gunhild í fyrstu Íslandsheimsókninni. „Þessari konu gleymi ég aldrei. Hún var vön að lesa dönsku en ekki mjög vön að tala skandinavísk mál og ég réð illa við íslenskuna í fyrstu. Við höfðum því þann háttinn á að hún talaði íslensku og ég norsku og það virkaði vel. Við Magnús vorum gerólík en hefði það ekki verið fyrir hann hefði ég kannski aldrei uppgötvað Ísland.“ Ljósmynd/Aðsend

Hérna í Noregi hefði þetta líklega verið þannig að fólk í sömu stöðu hefði strax farið að tala um bæinn eða svæðið sem það kæmi frá, hérna segir framburðurinn svo mikið um uppruna þinn að þú gætir nánast verið með það skrifað á ennið á þér,“ segir Gunhild og hlær.

Laug um myndlistaráhugann

Gunhild var í tygjum við Vigni Jóhannsson listmálara hluta þess tíma sem hún var búsett á Íslandi um aldamótin. „Þetta var árin 2000 til 2001 og var mjög skemmtilegur og eftirminnilegur tími,“ segir hún frá. „Vigni kynntist ég nú samt gegnum sameiginlega vini þegar ég var á Íslandi í fyrra skiptið, á níunda áratugnum. Hann bjó þá í Santa Fe í Bandaríkjunum og var bara í stuttri heimsókn á Íslandi. Hann bauð mér í bíltúr og við sáumst svo ekki meir í það skiptið,“ rifjar Gunhild upp.

„Þegar ég svo kom aftur til Íslands árið 2000 sat ég mikið á Súfistanum, ég bjó jú í húsinu, og þar voru verk merkt Vigni uppi um alla veggi. Svo ég hugsaði með mér hvort þetta væri sami maðurinn og ég hafði hitt tæpum 15 árum áður. Ég fletti honum upp í símaskránni og sagðist vera mikil áhugamanneskja um myndlist sem var haugalygi,“ segir Gunhild og hlær, „og spurði hvort ég mætti kaupa af honum málverk.

Með Vigni Jóhannssyni listmálara í vinnustofu hans við Laugaveg um …
Með Vigni Jóhannssyni listmálara í vinnustofu hans við Laugaveg um aldamótin. „Ég fletti honum upp í símaskránni og sagðist vera mikil áhugamanneskja um myndlist sem var haugalygi.“ Ljósmynd/Aðsend

Hann bauð mér þá á vinnustofuna sína við Laugaveg og hlutirnir æxluðust þannig að við urðum par. Ekki nóg með það heldur fékk ég að velja mér uppáhaldsmynd hjá honum – og fékk hana gefins,“ segir Gunhild kankvís.

„Okkar samband stóð nú svo sem ekki lengi, fram á 2001, við bjuggum saman á vinnustofunni hans og ég leigði íbúðina mína út á meðan. Sífellt þrætuepli okkar Vignis var hvort tungumálið við ættum að tala saman, ég vildi bara tala íslensku og verða fullnuma á þeim vettvangi, en Vignir, sem hafði búið í Noregi í æsku, vildi ólmur æfa sig í norskunni,“ segir Gunhild af sambandi sínu við listmálarann.

Á hinum menningarlega pizzastað Il Teatro í Hamar þar sem …
Á hinum menningarlega pizzastað Il Teatro í Hamar þar sem meginhluti viðtalsins fór fram daginn eftir að Gunhild lagði doktorsritgerð sína fram við háskólann þar í bænum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Orti ekki um eintóma náttúru

Gunhild fékkst einnig við þýðingar á bundnu máli en Reykjavíkurskáldið Tómas Guðmundsson varð henni einkar hugleikið meðan á Íslandsdvölinni stóð og þýddi hún ljóðin Frá liðnu vori og Hótel Jörð yfir á norsku og það með framburðarmállýsku Rendal í Hedmark-, nú Innlandet-fylki, sem Gunhild rekur uppruna sinn til.

Með því að smella á hlekkina í titlum ljóðanna má hlýða á lög við þau eftir Bergþóru Árnadóttur og Heimi Sindrason sem norski tónlistarmaðurinn Guren Hagen gaf út á geislaplötunni Hotell Jord árið 2001. „Ég man að Vignir bauð í útgáfupartý þegar diskurinn kom út, Heimir og Guðmundur Tómasson, sonur Tómasar, komu einmitt þangað ásamt konum sínum. Platan náði vinsældum hér í Noregi og heyrast oft lög af henni í útvarpinu,“ segir Gunhild.

Jólaheimsókn hjá Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs Vestfjarða, og Angelu konu …
Jólaheimsókn hjá Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs Vestfjarða, og Angelu konu hans, sem starfar sem þýðandi, á Flateyri við Önundarfjörð 2016. Peter, sem er frá Bæheimi í Þýskalandi, var samnemandi Gunhild við HÍ á níunda áratugnum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég varð hrifin af ljóðum Tómasar, hann orti svo mikið um borgarlífið, ekki bara stórbrotna náttúru. Ég varð líka stórhrifin af plötunni Fagra veröld sem kom út nokkru áður, þar sem Egill Ólafsson og Guðrún Gunnarsdóttir sungu ljóð Tómasar. Þar heyrði ég einmitt Frá liðnu vori fyrst.“

Af fræðum

Eins og nefnt var snemma í viðtalinu kom bókin Blote kan ein gjere om det berre skjer i løynd, eða Skyldu menn blóta á laun, ef vildu, út í Ósló árið 1996 og var þar um að ræða meistaraprófsritgerð Gunhild til cand.philol-gráðu við Háskólann í Ósló. Bar hún þar saman kristinna laga þætti Grágásarlaga, sem giltu á Íslandi á Þjóðveldisöld, og hinna norsku Gulaþingslaga. Dvaldi Gunhild um tveggja mánaða skeið á Íslandi árið 1994 og fékkst við rannsóknir sínar á Árnastofnun.

Skoðunarferð um Kaldadal sumarið 1986. Gunhild var þarna nýkomin til …
Skoðunarferð um Kaldadal sumarið 1986. Gunhild var þarna nýkomin til landsins á leið í íslenskunám fyrir erlenda stúdenta og sat mánaðarlangt sumarnámskeið á Akranesi þar sem nemendur bjuggu á heimavist. Ljósmynd/Aðsend

Málvísindamaðurinn Kjartan Árnason heitinn skrifaði um bókina í Morgunblaðið í apríl 1997 og tíundaði þar hvernig höfundurinn hefði komist að annarri niðurstöðu um tengsl íslenskra og norskra laga en fræðimenn fram að því og skrifar meðal annars:

„Gunhild Kværness kemst að þeirri niðurstöðu í ritgerðinni að ekki sé ástæða til að ætla að áhrif norskra laga séu meiri hér en eðlilegt geti talist út frá hugmyndum sem þá lágu í tímanum – um bein áhrif sé ekki að ræða. Kristinna laga þáttur Grágásar er afar sjálfstæður, segir Gunhild, en síðari rannsóknir gætu e.t.v. leitt í ljós að Íslendingar hefðu sótt sér fyrirmyndir til laga annarra landa en Noregs. Kværness sér nægar ástæður til að álykta að þessi þáttur laganna sé fyrst og fremst sprottinn úr þeirri menningu sem hér hafði mótast frá landnámi, og var í ýmsum atriðum búinn að skapa sér sérstöðu.“

Jólaheimsóknin á Flateyri 2016. Karl, sonur Gunhild, og fósturdóttir hennar …
Jólaheimsóknin á Flateyri 2016. Karl, sonur Gunhild, og fósturdóttir hennar Rina. Faðir Karls er finnsk-sænski leikarinn og kvikmyndaframleiðandinn Mats Långbacka. Karl kom í heiminn eftir að Gunhild fékk egggjöf frá annarri konu og hefur hún lagt sig í framkróka við að auka umræðu og þekkingu á því sviði meðal almennings, meðal annars í norskum fjölmiðlum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kynntist Kjartani í Ósló, sennilega var það 1981. Við vorum saman í norskunámi – og þá meina ég norsku fyrir Norðmenn!“ segir Gunhild af kynnum þeirra Kjartans. „Kjartan var tungumálasnillingur nánast án hliðstæðu, hann hafði fjölda norskra mállýskna á færi sínu. Við kynntumst svo betur þegar hann kenndi kvöldnámskeið í íslensku sem ég sat og héldum sambandi allt þar til hann lést árið 2006 sem var sorglegt. Á Íslandi kynnti ég hann fyrir Oskar Vistdal sem áttaði sig strax á náðargáfu Kjartans, sem varð til þess að Kjartan fór að kenna norsku við HÍ undir hans stjórn,“ segir Gunhild af Kjartani heitnum.

„Þegar ég var á Íslandi að skrifa þessa ritgerð fékk ég vinnuaðstöðu á Árnastofnun og komst þá í kynni við Guðrúnu Nordal [nú forstöðumann Árnastofnunar] og Gísla Sigurðsson [bókmenntafræðing] og held enn góðu sambandi við þau í dag.“

„Dritkul“ framburður

Nýframlögð doktorsritgerð Gunhild, sem að sjálfsögðu fjallar um norskar framburðarmállýskur, ber titilinn Måten je tala på, er dritkul eða Hvernig ég tala er ógeðslega kúl svo gerð sé tilraun til að fanga andann og stemmninguna í þessum ummælum eins þátttakendanna sem voru.

„Allir í Noregi sjá að þetta er staðarmállýska og þessi er frá Hamar-svæðinu,“ útskýrir Gunhild. „Í Ósló segði enginn „je tala“, þar segir fólk „jeg snakker“ ekki satt? En hitt skilja Íslendingar býsna vel reikna ég með,“ bætir hún við og blaðamaður verður að fallast á að fjölmargar norskar dreifbýlismállýskur eiga mun meiri samleið með íslenskri tungu en norska bókmálið og má þar einkum nefna margar mállýskur í Vestur-Noregi.

Í ritgerð sinni, sem Gunhild hefur legið yfir samhliða kennslu síðastliðin þrjú ár, rannsakar hún viðhorf ungmenna til fjögurra framburðarmállýskna með því að leggja hlustunardæmi fyrir 350 grunnskólanemendur á aldrinum 12 – 16 ára úr átta skólum í Innlandet og biðja þá svo að svara ákveðnum spurningum um þá sem töluðu á upptökunum sem nemendur fengu að hlýða á.

Bjørg Juhlin (lengst til hægri) ásamt dætrum sínum, Siv og …
Bjørg Juhlin (lengst til hægri) ásamt dætrum sínum, Siv og Ingunni Friðleifsdætrum. Juhlin hafði yfirumsjón með norskukennslu á Íslandi neðan háskólastigs og kynntust þær Gunhild árið 1986. „Bjørg var fljót að koma mér í norskukennslu úti um allt. Þessi fjölskylda hefur alltaf staðið mér hjarta nær, þarna komu þau að heimsækja mig í Rendalen fyrir nokkuð mörgum árum.“ Ljósmynd/Aðsend

Beitir Gunhild svokallaðri matched guise-aðferð við rannsókn sína, eða grímuprófi, sem felst í því að þátttakandi í rannsókn metur sama mælanda oftar en einu sinni án þess að vita af því sjálfur. Fyrir nemendurna lagði hún hlustunardæmi með framburði frá Austur-Ósló og Vestur-Ósló og svo Hedmark-framburð tveggja tímabila, nútímaframburð og eldri framburð á því svæði.

„Allir eru sammála um að tungumál þróast, íslenskan hefur til dæmis litlum breytingum tekið um aldabil á meðan norskan hefur breyst mjög mikið. Ástæðan fyrir því að maður vill skoða viðhorf fólks gagnvart málinu er að leita skýringanna á þessum breytingum,“ segir rannsakandinn.

Hún segir það almennt viðtekin sannindi að framburðurinn á Hamar-svæðinu, og víðar í Noregi, sé hægt og bítandi að þróast í áttina að Óslóarmálinu. Spurningin sé hvort breytingin er meðvituð eða ómeðvituð, hvort mælendur hafi tilhneigingu til að fikra sig nær talmáli höfuðstaða eða stærri þéttbýlissvæða vegna þess að þeir líti á talmál þar sem viðmið eða reglu (lat. norma, e. norm).

„Erlendar rannsóknir hafa bent til þess að svo kunni að vera, rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið í Danmörku, Færeyjum, Litháen, á Stuttgart-svæðinu í Þýskalandi og hér heima í Vestur-Noregi. Sjálf rannsóknaraðferðin byggir á prófi sem er dönsk hönnun, þróað við Málbreytingamiðstöð Kaupmannahafnarháskóla [d. Sprogforandringscentret] og mín rannsókn er í raun framlag til evrópskrar samanburðarrannsóknar á þessum vettvangi, en er þó fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér í Austur-Noregi,“ segir Gunhild og bætir því við að rannsóknin hafi auðvitað krafist þess að þátttakendurnir vissu ekki hvað í raun var verið að rannsaka.

„Þegar þeir voru búnir að hlusta á taldæmin fengu þeir spurningar um átta manneskjur, en í raun voru það aðeins tvær sem töluðu á upptökunum, önnur þeirra ég sjálf. Við lásum bæði alla fjóra framburðina, ég get brugðið þeim öllum fyrir mig, gamli Rendalsframburðurinn er jú sá framburður sem ég ólst upp með og sá sem ég nota þegar ég er þar,“ segir Gunhild sem hefur tjáð sig á hreinni bókmálsnorsku allt viðtalið.

„Spurningarnar sneru að því hvort þátttakendunum líkaði við mælendurna og hvort þeim þættu þeir klárir, spennandi, áreiðanlegir, „kúl“, málefnalegir, alvarlegir eða sjálfsöruggir. Þannig áttu þeir að vega og meta eigendur raddanna sem þeir heyrðu, en fengu ekkert að vita um að í rauninni væri verið væri að fiska eftir áliti þeirra á framburðarmállýskunni.

Þá kom það í ljós að þegar ég talaði með gömlu Rendalsmállýskunni var ég miklu klárari, meira spennandi og fleira í sömu átt en þegar ég notaði Óslóarmállýskurnar tvær. Þegar upp var staðið lenti Vestur-Ósló neðst í vinsældum og gamla Rendalsmálið efst, Rendal nútímans varð í öðru sæti og Austur-Ósló í þriðja. Rannsóknin sýnir þar með svart á hvítu – og stangast þar með á við samanburðarrannsóknirnar – að þátttakendurnir voru jákvæðastir í garð framburðarmállýskna utan höfuðborgarinnar, þrátt fyrir að tilhneigingin í Noregi sé að færa málið nær því sem talað er í höfuðstaðnum,“ lýkur doktorinn verðandi máli sínu og fær sér vatnssopa – enda búin að kollvarpa viðteknum kenningum í málvísindum rétt eins og að drekka vatn.

mbl.is