Yfir 2.000 látnir úr Covid-19 í Danmörku

Ekki eru allir jafnánægðir með aðgerðir danskra stjórnvalda. Hér sést …
Ekki eru allir jafnánægðir með aðgerðir danskra stjórnvalda. Hér sést lögreglan standa vörð við mótmæli um þúsund Dana í Kaupmannahöfn. AFP

Dauðsföll vegna Covid-19 eru orðin 2.010 í Danmörku eftir að 27 létust úr sjúkdómnum síðasta sólarhring. 

Rétt rúmur mánuður er síðan dauðsföll í Danmörku náðu 1.000, en það gerðist 18. desember. Samkvæmt Viggo Andreasen, lektor í stærðfræðilegri smitsjúkdómafræði við Háskólann í Hróarskeldu, má rekja þessa miklu fjölgun dauðsfalla til hámarks annarrar bylgju faraldursins í Danmörku í desember.

Smit urðu flest 4.508 á einum sólarhring, einmitt líka 18. desember, en í kjölfarið gripu dönsk stjórnvöld til harðra aðgerða sem nú hafa staðið í mánuð. Með aðgerðunum, sem kveða meðal annars á um lokun allra skóla, allra verslana nema matvöruverslana og apóteka, og lokun allra veitingastaða, nema fyrir mat til að taka með heim, hefur tekist að draga mjög úr fjölda smita, en síðasta sólarhring greindust til að mynda 625 ný kórónuveirusmit.

Heildarfjöldi smita í Danmörku nálgast 200.000, en stendur í 195.296. 

Núgildandi samkomutakmarkanir gilda til 7. febrúar.

Frétt BT

mbl.is