400 milljarða skaðabætur til minkabænda

Minnisvarði um mink á Spáni.
Minnisvarði um mink á Spáni. AFP

Ríkisstjórn Danmerkur hefur komist að samkomulagi við flesta flokka á danska þinginu um greiðslu skaðabóta til handa minkabændum í landinu í skaðabætur fyrir að hafa gert út af við iðnaðinn í kórónuveirufaraldrinum. DR greinir frá.

Alls getur fjárhæð bótanna numið 18,8 milljörðum danskra króna (397 mö. ISK) og er það umtalsvert meira en ríkisstjórnin hafði fyrst boðið minkabændum.

Ríkisstjórn Danmerkur fyrirskipaði í nóvember að öllum minkum í landinu skyldi slátrað eftir að tólf manns greind­ust smitaðir af stökk­breyttu af­brigði kór­ónu­veirunn­ar sem rakið er til minka­bús á Norður-Jótlandi. Síðar kom í ljós að ríkisstjórnin hafði ekki haft lagaheimild fyrir tilskipuninni sem þá var breytt í tilmæli, áður en tilskipuninni var veitt lagastoð. Fór svo að landbúnaðarráðherrann sagði af sér vegna málsins.

Dan­ir voru stærsti fram­leiðandi minka­skinns í heim­in­um og stóðu und­ir 40 pró­sent­um af heims­fram­leiðslunni. Tvö­falt fleiri mink­ar en menn bjuggu í Dan­mörku, áður en nokkr­ir þeirra nældu sér í Covid, en í kjölfarið var minkahald bannað til ársloka 2021. Innifalið í bótafjárhæð er styrktarkerfi sem ætlað er að hjálpa minkabændum að hefja starfsemi á ný þegar banninu sleppir.mbl.is