Baðst afsökunar á varnarleysi lögreglunnar

Fimm létu lífið í innrásinni í bandaríska þinghúsið þann 6. …
Fimm létu lífið í innrásinni í bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021. AFP

Yoganda Pittman, starfandi yfirmaður þinglögreglunnar í Washington DC, hefur beðið þingmenn afsökunar á andvaraleysi lögreglunnar gagnvart stuðningsmönnum Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem réðust inn í bandaríska þinghúsið 6. janúar sl.

Pittman sat fyrir svörum á fundi fjárlaganefndar þingsins, sem hefur meðal annars það hlutverk að veita lögreglunni fjármagn. BBC greinir frá.

Ekki undirbúin fyrir hryðjuverkaárás

Í máli hennar kom fram að lögreglan hefði búið sig undir mikinn samansafnaðan fjölda fólks en þrátt fyrir „miklar líkur á ofbeldi“ hefði hún ekki búið sig undir „hryðjuverkaárás“. Pittman tók við taumunum af forvera sínum eftir að sá síðarnefndi sagði af sér í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið.

Fimm manns létu lífið í innrásinni, þar af einn lögreglumaður eftir að slökkvitæki var kastað í höfuð hans. Andlát hans er rannsakað sem manndráp.

Óeirðalögreglan kom þinglögreglunni til hjálpar eftir að stuðningsmenn þáverandi forseta …
Óeirðalögreglan kom þinglögreglunni til hjálpar eftir að stuðningsmenn þáverandi forseta höfðu brotið sér leið inn í þinghúsið. AFP

Meðvituð um áætlanir um að grípa til vopna

Pittman viðurkenndi að þinglögreglan hafi verið meðvituð um að mótmælendur ætluðu að safnast saman fyrir framan þinghúsið, margir hverjir með skotvopn sín, tveimur dögum fyrir innrásina. Lögreglulið hennar, sem telur um 1.200 manns, hafi hins vegar ekki átt roð við „tugum þúsunda uppreisnarmanna“.

„Ég er hér til að biðjast innilega afsökunar fyrir hönd lögreglunnar,“ bætti Pittman við. Tók hún fram að forveri hennar hefði óskað eftir því að neyðarástandi yrði lýst yfir tveimur dögum fyrir innrásina en þeirri beiðni verið hafnað af lögregluráði.

Donald Trump hefur verið ákærður af bandaríska þinginu fyrir að hvetja til innrásarinnar.

mbl.is