„Hann sat undir tré og veifaði til okkar“

Robert Weber sést hér hljóta aðhlynningu skömmu eftir að hann …
Robert Weber sést hér hljóta aðhlynningu skömmu eftir að hann fannst eftir að hafa verið saknað í 18 daga í Queensland. AFP

Tæplega sextugur maður fannst nýverið á lífi eftir að hafa verið saknað í 18 daga í Queensland í Ástralíu. Hann þraukaði með því að nærast á sveppum og drekka vatn úr nálægri stíflu. 

Lögreglan hóf leit að Robert Weber, sem er 58 ára gamall, fyrir tæpum þremur vikum þegar ekkert hafði spurst til hans. Hann fannst loks á sunnudag skammt frá stíflu, en það var landeigandi sem kom auga á Weber. 

Að sögn lögreglu var Weber kaldur eftir útiveruna en að öðru leyti heill heilsu, að því er segir á vef BBC. 

Síðast hafði sést til Webers yfirgefa hótel í bænum Kilkivan þann 6. janúar þegar hann fór út með hundinn sinn. Hann lenti svo í vandræðum þegar bifreið hans festist í foraði á sveitavegi. 

Hann svaf í bílnum fyrstu þrjár næturnar eða þar til vatnsbirgðirnar kláruðust. Þá lagði hann af stað fótgangandi í leit að hjálp en ekki leið á löngu þar til hann var orðinn áttavilltur. Lögreglan segir að Weber hafi sofið utandyra, lagt sér sveppi til munns og drukkið vatn úr stíflunni. Þannig hafi hann haldið sér á lífi. 

Umfangsmikil leit hófst að Weber, bæði úr lofti og á jörðu niðri, en hún skilaði engum árangri. Lögreglan og landeigendur á svæðinu voru aftur á mótin beðin um að hafa augun opin. 

Svo fór að þingmaðurinn Tony Perrett og eiginkona hans eru sögð hafa fundið Weber á landareign sinn þar sem þau eru með nautgripi. Weber var þá staddur um það bil þremur kílómetrum frá staðnum þar sem bifreiðin sat föst. 

„Hann sat undir tré rétt hjá stíflu og veifaði til okkar,“ sagði Perret í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina í Ástralíu.

Ekkert hefur spurst til hundsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert