Úr skugganum fram í sviðsljósið

Nepalskir fjallgöngumenn sem urðu fyrstir til að standa á toppi K2 að vetri sneru heim í dag. Var þeim fagnað sem þjóðhetjum enda afrekið gríðarlegt; að klífa næsthæsta fjall heims og sennilega það hættulegasta að vetri til.

Þykir afrek þeirra beina kastljósinu að þeim sem yfirleitt eru í skugga alþjóðlegra fjallgöngumanna sem kaupa sér þjónustu Nepala til að klífa fjöll í Himalajafjallgarðinum.

K2 er 8.611 metrar að hæð og meðal þeirra sem nú reyna að komast á tind fjallsins er John Snorri Sigurjónsson.

Þegar tíu manna hópurinn kom til Katmandú í dag var þjóðsöngurinn leikinn og fjölmargir aðdáendur fögnuðu með blómum og þjóðfána Nepals. „Þetta er ekki bara okkar velgengni heldur allra Nepala. Svo komandi kynslóðir geti litið aftur og verið stoltar af árangri nepalskra fjallgöngumanna,“ segir Mingma Gyalje Sherpa, einn leiðangursmanna.

Kami Rita Sherpa, sem hefur klifið Everest oftar en nokkur annar eða 24 sinnum, segir að viðurkenningin sé löngu tímabær. „Vestrænir fjallgöngumenn hefðu ekki sett þessi met án aðstoðar sjerpa,“ segir hann. „Allar leiðir eru lagðar af okkur, við eldum matinn, farangur þeirra er borinn af bræðrum okkar. Þeir hafa ekki gert þetta einir.“

Frá því fyrsta breska teymið ákvað að leggja á Everest á þriðja áratug síðustu aldar hafa nepalskir fjallgöngumenn, flestir af ættflokki sjerpa, verið þeim til aðstoðar. En það var ekki löngunin til að ná heimsfrægð sem dró þá áfram heldur einfaldlega þörf fyrir að fæða og klæða fjölskyldur sínar, segir í frétt AFP. 

Ang Tharkay, sem var hluti af leiðangri Frakka á Annapurna árið 1950, neitaði að láta skrá sig sem einn leiðangursmanna en hópurinn var sá fyrsti sem náði að klífa fjall yfir átta þúsund metra á hæð. Fyrir hann var mikilvægara að halda fingrum og tám frá kali enda gæti það ógnað lífsviðurværi hans. 

Síðan þá hefur fjallgönguiðnaðurinn vaxið og dafnað í Nepal og á hverju ári koma hundruð erlendra fjallgöngumanna þangað til að klífa fjöll. Þetta skilar milljónum bandaríkjadala í tekjur ríkissjóðs Nepals.

Sérhæfður fararstjóri getur haft allt að 10 þúsund dali upp úr krafsinu fyrir nokkurra mánaða starf sem er margfalt meira en meðaltekjur í landinu. En áhættan er mikil því fjórðungur dauðsfalla í Nepal er Nepalar sem eru ráðnir til starfa af erlendum fjallgöngumönnum. 

Í snjóflóðinu 2014 létust 16 Nepalar sem voru að koma fyrir búnaði og tryggingum á Everest fyrir fjallgönguhópa. Flóðin höfðu gríðarleg áhrif á stöðu greinarinnar því bæði var bannað að klífa fjallið í kjölfarið og sjerparnir kröfðust þess að fá betri laun fyrir störf sín vegna þeirrar áhættu sem þeir standa frammi fyrir í starfinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert