500 gjörgæslurúm fyrir 32 milljónir

AFP

Öllu verður skellt í lás í hluta Perú í lok janúar og gildir útgöngubannið í tvær vikur. Aðeins 500 gjörgæslurúm eru í Perú en íbúarnir eru 32 milljónir talsins. Bráðabirgðaforseti Perú, Francisco Sagasti, greindi þjóð sinni frá hertum sóttvarnareglum í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi. 

Hertar reglur taka gildi 31. janúar og gilda til 14. febrúar og ná til um helming þjóðarinnar eða 16,4 milljóna. Öll nauðsynleg þjónusta eins og markaðir, lyfjaverslanir og bankar verða opin áfram en kirkjum lokað. Á þeim stöðum sem nýju reglurnar ná ekki til verða áfram í gildi fyrri reglur, það er útgöngubann að næturlagi og samkomubann.

AFP

Sagasti segir að allar flugsamgöngur við Brasilíu verði stöðvaðar tímabundið en þar eru dauðföllin næstflest í heiminum á eftir Bandaríkjunum.

Nýjum smitum hefur fjölgað úr um 1 þúsund í 5 þúsund undanfarna daga og hafa þau ekki verið svo mörg síðan faraldurinn var í hámarki í fyrra. Jafnframt hefur dauðsföllum af völdum Covid-19 fjölgað jafnt og þétt og eru þau yfirleitt um 100 talsins nú í stað 40 áður. Rúmlega 40 þúsund hafa látist af völdum kórónuveirunnar í Perú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert