Herða reglur á landamærum Bretlands

AFP

Breskir ríkisborgarar sem eru að snúa heim frá rúmlega 30 löndum sem skilgreind eru sem áhættusvæði verður gert að fara í sóttkví á hóteli. Fjallað er um þetta í breskum fjölmiðlum í dag en von er á að innanríkisráðherra landsins, Priti Pate, kynni þetta síðar í dag.

Með hertum reglum er gert ráð fyrir að ferðamenn þurfi að dvelja á hótelum skammt frá flugvöllum í tíu daga, samkvæmt fréttum Times og BBC. Ríkin sem falla í þennan flokk eru lönd þar sem ný og bráðsmitandi afbrigði Covid-19 eru mörg. 

Aðrir ferðamenn, sem koma frá þessum löndum, mega hvort sem er ekki koma til Bretlands samkvæmt núgildandi reglum. Meðal annars er um að ræða ríki Suður-Ameríku, Portúgal, Grænhöfðaeyjar og Suður-Afríka en íbúar þessara ríkja voru settir í komubann í Bretlandi eftir að ný afbrigði voru greint í Brasilíu og Suður-Afríku. 

Tíu daga sóttkví mun kosta Breta sem nýta hana 1.500 pund, sem svarar til 266 þúsund króna. Þeir fá máltíðir afhentar við herbergisdyr og öryggisverðir fylgjast með að fólk yfirgefi ekki hótelin eða brjóti sóttkví á annan hátt.

The Times segir að ekki séu allir ráðherrar og skuggaráðherrar sáttir við þessa niðurstöðu þar sem sumir telja að þetta eigi að gilda um alla sem koma til landsins sama hvaðan þeir koma. Öllum verði gert að fara í 10 daga sóttkví á hóteli.

Bretland er það land Evrópu sem hefur farið verst út úr kórónuveirufaraldrinum en yfir 100 þúsund hafa látist af völdum veirunnar þar í landi. Varað er við því að 50 þúsund til viðbótar geti dáið á næstu mánuðum. 

mbl.is