Landamæri Noregs nánast með öllu lokuð

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Norðmenn hafa lokað landamærum sínum fyrir öðrum en Norðmönnum nema í sérstökum undantekningartilfellum. Þetta eru ströngustu landamæralokanir í Noregi síðan í mars á síðasta ári. Takmarkanirnar taka gildi annað kvöld, að því er fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins.

Þar er haft eftir Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, að landamærin séu í reynd lokuð öllum sem ekki búa í Noregi. Stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar hafi dreifst verulega í löndum í kringum Noreg.

Þeir sem undantekningartilfelli ná yfir eru aðallega sænskir og finnskir heilbrigðisstarfsmenn sem starfa í Noregi, fólk sem vinnur við vöru- og farþegaflutninga, og fólk sem hefur sérstakar ástæður til þess að koma til Noregs, án þess að það sé útskýrt nánar.

Samkvæmt Solberg þýðir þetta að flutningur vöru og þjónustu verði tryggður en margir farandverkamenn fái ekki að koma til landsins á næstu vikum.

mbl.is