MAX-vélar öruggar en áfram undir eftirliti

737 MAX-vél Boeing.
737 MAX-vél Boeing. AFP

Flu­gör­ygg­is­mála­stofn­un Evr­ópu­sam­bands­ins, EASA, segir að flugvélar Boeing af teg­und­inni 737 MAX séu öruggar og þær megi fljúga á nýjan leik í Evrópu, 22 mánuðum eft­ir að þær voru kyrr­sett­ar vegna tveggja mann­skæðra slysa.

Greint er frá þessu á vef Flugöryggismálastofnunarinnar en í síðustu viku kom fram að Boeing hefði uppfyllt fjórar helstu kröfur stofnunarinnar varðandi endurkomu Max-vélanna.

„Við höfum trú á því að flugvélarnar séu öruggar, sem er ástæðan fyrir leyfi okkar. Við munum hins vegar halda áfram að fylgjast vel með 737 MAX-vélunum,“ er haft eftir Pat­rick Ky, yf­ir­manni EASA á vef stofnunarinnar.

MAX-vél­arn­ar voru kyrr­sett­ar í mars 2019 eft­ir tvö slys þar sem 346 manns fór­ust. Fyrst hrapaði flug­vél Lion Air til jarðar árið 2018 í Indó­nes­íu og árið eft­ir vél Et­hi­opi­an Air­lines.

Grænt ljós hef­ur þegar verið gefið í Banda­ríkj­un­um og í Bras­il­íu á að vél­arn­ar fari í loftið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert