Segja stjórnvöld reyna að þagga niður í þeim

Lögreglumaður fyrir utan markaðinn í Wuhan í janúar í fyrra …
Lögreglumaður fyrir utan markaðinn í Wuhan í janúar í fyrra þar sem kórónuveiran greindist í fyrsta sinn. AFP

Ættingjar þeirra sem létust af völdum kórónuveirunnar í kínversku borginni Wuhan segja að yfirvöld í landinu hafi eytt hópi sem þeir höfðu búið til á samfélagsmiðli. Þeir segja yfirvöld hafa beitt þá þrýstingi um að tjá sig ekki um dauðsföllin á sama tíma og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er komin til borgarinnar til að rannsaka uppruna veirunnar.

Tugir ættingja hafa hópast saman á netinu í von um að embættismenn í Wuhan viðurkenni ábyrgð sína. Skyldmennin saka þá um að hafa ekki brugðist rétt við til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar í borginni fyrir ári.

Fólk á ferli í borginni Wuhan.
Fólk á ferli í borginni Wuhan. AFP

Hingað til hafa embættismenn hindrað ættingjana í vegferð sinni, fylgst með hópum þeirra á samfélagsmiðlum og reynt að haft uppi hótanir, segja ættingjarnir.

Undanfarna daga hefur þrýstingurinn í garð skyldmennanna aftur á móti aukist, líklega til að kæfa niður alla gagnrýni og komast hjá vandræðagangi meðan á rannsókn WHO stendur.

Hópi á samfélagsmiðlinum WeChat sem 80 til 100 ættingjar hafa notað undanfarið ár var skyndilega eytt án nokkurrar skýringar fyrir um tíu dögum, sagði Zhang Hai, liðsmaður hópsins sem hefur gagnrýnt viðbrögð stjórnvalda harðlega.

„Þetta sýnir að [kínversk stjórnvöld] eru mjög taugaveikluð. Þau eru hrædd um að fjölskyldurnar setji sig í samband við sérfræðinga WHO,“ sagði Zhang, sem er 51 árs. Faðir hans lést fljótlega eftir að faraldurinn fór af stað, líkast til af völdum Covid-19.

Fólk á ferðinni í borginni Wuhan.
Fólk á ferðinni í borginni Wuhan. AFP

Sérfræðingar WHO komu til Wuhan 14. janúar og ljúka við 14 daga sóttkví á morgun.

„Þegar WHO kom til Wuhan eyddu yfirvöld hópnum. Fyrir vikið höfum við misst samband við marga félaga,“ bætti Zhang við. Fleiri ættingjar staðfestu að hópnum hefði verið eytt. WeChat er starfrækt af kínverska fyrirtækinu Tencent.

mbl.is