Tala látinna 68% hærri en áður var talið

Andres Manuel López Obrador, forseti Mexíkó.
Andres Manuel López Obrador, forseti Mexíkó. AFP

Yfirvöld í Mexíkó gáfu út í dag nákvæmari tölur yfir dauðsföll af völdum kórónuveirunnar í landinu sem sýna að mun fleiri hafi dáið á liðnu ári en upphaflega var talið. Samkvæmt nýjum tölum létust tæplega 110 þúsund manns í Mexíkó þegar komið var fram í september í fyrra, sem er um 68% fleiri dauðsföll en þau 64 þúsund dauðsföll sem áður höfðu verið talin saman fyrir það tímabil.

Nú er því talið að allt að 172 þúsund manns hafi látist í Mexíkó, samkvæmt nýjum tölum yfirvalda.

„Margir látast ekki á sjúkrahúsum heldur á heimilum sínum. Það getur að einhverju leyti útskýrt þennan mismun,“ segir Edgar Vielma, tölfræðingur hjá mexíkósku hagstofunni.

Í Mexíkó búa um 126 milljónir manna og hafa um 1,8 milljón þeirra smitast. Þar á meðal er hin 67 ára gamli Manuel Lopez Obrador, forseti landsins, líkt og hann tilkynnti á sunnudag. Hann segist finna fyrir léttvægum einkennum og ber sig vel þrátt langa sjúkrasögu.

Erfitt hefur reynst að skima fyrir kórónuveirunni í Mexíkó og því er smittölum þaðan tekið með fyrirvara. Sjúkrahús eru yfirfull, sér í lagi í Mexíkóborh, höfuðborg landsins, þar sem hálfgert útgöngubann hefur verið í gildi síðan í desember.

Bólusetning við veirunni hófst á aðfangadag í fyrra en illa hefur gengið að bólusetja vegna skorts á bóluefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert