Reyna að finna lausn á deilunni

Stella Kyriakides fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB.
Stella Kyriakides fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB. AFP

Evrópusambandið og bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca hafa lýst því yfir að vinna saman að því að finna lausn á deilunni vegna afhendingar á bóluefni til ríkja sem kaupa bóluefni undir hatti Lyfjastofnunar Evrópu. Í gær fóru fram viðræður milli fulltrúa deiluaðila og eru báðir sammála um að þær viðræður hafi verið uppbyggilegar.

AstraZeneca hafði áður greint frá því að fyrirtækið gæti aðeins afhent brot af því bóluefni sem það hafði heitið að afhenda á fyrsta ársfjórðungi. Ástæðan væri vandræði í lyfjaverksmiðjum fyrirtækisins í Evrópu.

ESB sagði aftur á móti að fyrirtækið yrði að virða skuldbindingar sínar og afhenda bóluefnið með því að flytja bóluefni frá Bretlandi til ríkja ESB.

Samningur ESB og AstraZeneca felur í sér ákvæði um trúnað en ESB hefur óskað eftir því að AstraZeneca birti samkomulagið þrátt fyrir það, að því er segir í frétt BBC.

Í síðustu viku birtust fréttir af því að ESB myndi fá 60% færri skammta af bóluefni en til stóð eða um 50 milljónir skammta á fyrsta ársfjórðungi.

Bóluefni AstraZeneca er þróað í samstarfi við Oxford-háskóla en það hefur ekki enn fengið markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu. Fastlega er gert ráð fyrir að það verði veitt á morgun og á Íslandi í kjölfarið.

Eftir fundinn í gær sagði Stella Kyriakides, sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB, að hún harmaði að enn vantaði upp á nánari upplýsingar um afhendingu en unnið verði að því með lyfjafyrirtækinu að finna lausn á því þannig að hægt verði að afhenda það með hraði til íbúa ríkja ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert