Fær AstraZeneca leyfið í dag?

AFP

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) mun væntanlega greina frá því í dag hvort bóluefni Oxford-AstraZeneca við kórónuveirunni fái skilyrt markaðsleyfi í ríkjum sem eiga aðild að stofnuninni. Á sama tíma hafa áhyggjur aukist um virkni bóluefnanna við nýrri afbrigðum veirunnar.

Bóluefnið kallast Covid-19 Vaccine AstraZeneca og fundar sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) um beiðni Astra-Zeneca um skilyrt markaðsleyfi í dag. Til að fá leyfið þurfa umsóknargögnin að sýna með fullnægjandi hætti fram á gæði, öryggi og virkni bóluefnisins. 

Vísindamenn hafa áhyggjur af því að svo virðist sem bóluefni sem þegar hafa verið þróuð virki ekki í öllum tilvikum við afbrigði sem fyrst greindist í Suður-Afríku. 

EMA hefur boðað til blaðamannafundar í Amsterdam klukkan 14 að íslenskum tíma, að loknum fundi sérfræðinga CHMP. 

Ef bóluefni AstraZeneca fær leyfi þá nær það til allra aðildarríkja ESB auk Íslands, Noregs og Liechtenstein. EMA hefur þegar veitt Pfizer-BioNTech og  Moderna markaðsleyfi.

Eftir á að koma í ljós hvort ESB muni banna að fólk eldri en 65 ára verði bólusett með AstraZeneca bóluefninu líkt og Þjóðverjar hafa gert. Lyfjafyrirtækið er ekki á sama máli og segir að það veiti eldra fólk góða vörn líkt og öðrum. Á sama tíma er enn deilt um afhendingu bóluefnisins, hvort Bretar fái bóluefni sem ríki ESB og EES hefðu annars átt að fá. 

Mikil bólusetningarherferð er í gangi í Bretlandi enda fá lönd í heiminum sem hafa farið jafn illa út úr faraldrinum og Bretland. Líkt og fram hefur komið geta áhrifin af völdum Covid-19 verið mjög alvarleg. Bæði andleg og líkamleg. 

Yfir 101 milljón jarðarbúa hefur smitast af kórónuveirunni og ekkert lát virðist vera í nýjum smitum. 

Bandaríska líftæknifyrirtækið Novavax greindi í gær frá niðurstöðum í fasa þrjú í klínískum rannsóknum á þeirra bóluefni. Virknin er 89,3% samkvæmt rannsókn sem gerð var meðal Breta og virkaði mjög vel á það afbrigði sem fyrst greindist þar í landi. Aftur á móti er virknin umtalsvert minni gagnvart afbrigðinu sem greindist fyrst í Suður-Afríku. Bæði Pfizer og Moderna segja að þeirra bóluefni virki við báðum afbrigðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert