Lögmenn Trumps hverfa á braut

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Þó nokkrir af lögmönnum Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafa yfirgefið teymi hans aðeins rúmri viku áður en réttarhöld hefjast yfir honum vegna ákæru fyrir embættisglöp.

CNN vitnaði í heimildarmenn og sagði að fimm lögmenn, þar af tveir sem voru taldir eiga að leiða teymið, hefðu yfirgefið það eftir ósætti um hvaða leið skyldi fara til að verja Trump.

Trump vildi að lögmennirnir héldu til streitu tilhæfulausum fullyrðingum hans um að mikil kosningasvik hefðu átt sér stað í forsetakosningunum í staðinn fyrir að einbeita sér að lögmæti þess hvort hægt væri að sakfella forseta eftir að hann er farinn úr embætti, að sögn CNN, sem bætti við að Trump væri ekki tilbúinn að ræða það síðarnefnda.

Butch Bowers og Deborah Barbier voru taldir eiga að leiða teymið og að sögn CNN var það „sameiginleg ákvörðun“ að þeir skyldu hætta.

„Við höfum lagt mikið á okkur en höfum ekki tekið lokaákvörðun um lögmannateymið okkar. Hún verður tekin bráðlega,“ tísti Jason Miller, ráðgjafi Trumps, vegna fréttanna um brotthvarf lögmannanna.

mbl.is