Áfengisbanni aflétt í Suður-Afríku

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hefur aflétt áfengisbanni þar sem milljón …
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, hefur aflétt áfengisbanni þar sem milljón skammtar af bóluefni hafa borist til landsins. AFP

Forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, hefur aflétt umdeildu áfengisbanni sem var liður í sóttvarnaaðgerðum þar í landi. Þá mega sólbaðsstrendur aftur opna auk þess sem trúarsamkomur mega aftur fara fram með takmörkunum, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Var þetta tilkynnt í kjölfar þess að milljón bóluefnaskammtar frá AstraZeneca bárust til landsins. Þar hafa flest kórónuveirusmit greinst frá byrjun faraldursins í álfunni, 1,4 milljónir smita, og auk þess flestir látið lífið vegna veirunnar eða 44.164 manns.

Mörg ríki hafa lokað fyrir komufarþega frá Suður-Afríku til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu 501Y.V2-afbrigðisins sem er bráðsmitandi og er talið eiga upptök þar syðra. Auk þess liggur fyrir grunur um að bóluefni hafi minni virkni gagnvart 501Y.V2 en öðrum afbrigðum veirunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert