Hóta að beita refsiaðgerðum

Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur hótað því að refsiaðgerðum verði beitt gagnvart Mjanmar (áður Búrma) vegna valdaráns hersins. Ekki er langt síðan fyrri refsiaðgerðum var aflétt.

Aung San Suu Kyi og aðrir kjörnir fulltrúar voru handteknir af hernum í gær og flokkur Suu Kyi sakaður um kosningasvindl.

Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa fordæmt valdaránið en óttast er að til átaka komi í kjölfarið. 

Suu Kyi, sem var í haldi í 15 ár, hefur hvatt stuðningsmenn sína til að mótmæla valdaráninu í bréfi sem hún skrifaði áður en hún var handtekin. Þar varar hún við því að landið sé á leiðinni undir herforingjastjórn að nýju.

Herinn neitar að viðurkenna úrslit þingkosninganna í nóvember og hefur boðað herlög í eitt ár. Þegar hefur verið skipt um ráðherra og aðra embættismenn. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert