Rússneska bóluefnið Sputnik V veitir 92% vernd

Spútnik V-bóluefni Rússa veitir tæplega 92% vernd gegn Covid-19, samkvæmt rannsóknarniðurstöðum sem birtar voru í læknatímaritinu Lancet í dag. Óháðir sérfræðingar segja að niðurstöðurnar dragi úr tortryggni í garð bóluefnisins sem yfirvöld í Moskvu eru nú þegar farin að sprauta í þegna sína. 

Sputnik V fékk markaðsleyfi í Rússlandi mánuðum áður en niðurstöður úr klínískum rannsóknum á lokastigi voru birtar. Það leiddi til efasemda sérfræðinga. 

Tveir skammtar veita vernd

Ný greining á gögnum frá 20.000 þátttakendum í þriðja stigs rannsóknum benda nú til þess að tveir skammtar af bóluefninu veiti 91,6% vernd gegn Covid-19 með einkennum. 

„Þróun Sputnik V-bóluefnisins hefur verið gagnrýnd fyrir óheyrilega fljótfærni og ekkert gagnsæi,“ segir í óháðri umsögn um bóluefnið. 

„En niðurstaðan sem er greint frá hér er skýr og er sýnt fram á að nú getur annað bóluefni tekið þátt í baráttunni við að draga úr tíðni Covid-19.“

Bóluefnaglös sem innihalda Sputnik V.
Bóluefnaglös sem innihalda Sputnik V. AFP
mbl.is