Á 288 km hraða í göngum

Fyrsta verk ökumannsins eftir að hafa ekið um Soknedalsgöngin í …
Fyrsta verk ökumannsins eftir að hafa ekið um Soknedalsgöngin í Midtre Gauldal í Þrændalögum í nóvember var auðvitað að deila myndskeiði af hraðamæli bifreiðarinnar á Tik Tok. Næst vöktu barnabörn bæjarfulltrúa athygli ömmu sinnar á því og hún dreifði því á Facebook. Í kjölfarið var ökumaðurinn sviptur ökuleyfi og bifreið og sér nú fram á óskilorðsbundið fangelsi og þriggja ára sviptingu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögreglan í Þrændalögum í Noregi hefur svipt mann á þrítugsaldri ökuleyfi til bráðabirgða auk þess að gera bifreið hans upptæka eftir að hann varð uppvís að akstri á 288 kílómetra hraða miðað við klukkustund í Soknedalsgöngunum, 3,6 kílómetra löngum jarðgöngum í Midtre Gauldal þar sem hámarkshraðinn er 80, í nóvember.

Upp komst um brotið, akstur á rúmlega 200 kílómetra hraða yfir leyfðum hámarkshraða, þegar barnabörn Ninu Bratt Staverløkk, bæjarfulltrúa í Midtre Gauldal, bentu henni á myndskeið á samfélagsmiðlinum Tik Tok sem ökumaðurinn hafði tekið af stafrænum hraðamæli bifreiðar sinnar meðan á akstrinum stóð og að sjálfsögðu deilt því um lýðnetið.

Staverløkk féll allur ketill í eld og dreifði myndskeiðinu á Facebook hjá sér og leið ekki á löngu uns það náði augum lögreglu.

„Við lítum málið mjög alvarlegum augum. Akstur bifreiðar á þessum hraða hefur stórhættu í för með sér, hvort tveggja fyrir ökumanninn og aðra vegfarendur,“ segir Jannicke Evjen Olsen, lögmaður lögreglunnar í Þrændalögum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Eins og Formúla-1

Frode Tiller Skjervø, talsmaður norsku umferðaröryggissamtakanna Trygg Trafikk í Þrændalögum, kveður tiltæki ökumannsins hreina firru. „Þetta er algjör bilun. Fæst fólk áttar sig á því hve mikill hraði þetta er, hann er á pari við Formúlu-1-kappakstur og það er hrein vitfirring að nokkur maður aki svo hratt á almennum vegum í Noregi,“ segir Skjervø.

Annar munni Soknedalsganganna sem eru 3,6 km löng jarðgöng í …
Annar munni Soknedalsganganna sem eru 3,6 km löng jarðgöng í Midtre Gauldal. Um þau ók maðurinn á 288 km hraða, rúmlega 200 yfir löglegum 80 km hámarkshraða. Ljósmynd/Statens vegvesen

Lögregla rannsakar nú bifreið ökumannsins með það fyrir augum að afhjúpa hvort þar sé komin sama bifreið og notuð var við brotið og hvort hraðinn, sem hraðamælirinn sýndi, hafi verið hinn raunverulegi hraði bifreiðarinnar.

Ökumaðurinn hefur sætt yfirheyrslu auk þess sem rætt hefur verið við eitt vitni vegna málsins. Verði hinn grunaði sekur fundinn um háttsemina bíður hans óskilorðsbundinn fangelsisdómur og líkast til þriggja ára ökuleyfissvipting.

NRK

VG

Adresseavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert