Cruise heltekinn af Noregi

Abid Raja menningarmálaráðherra ásamt stórvini sínum Tom Cruise, en Raja …
Abid Raja menningarmálaráðherra ásamt stórvini sínum Tom Cruise, en Raja var fljótur að taka málin í sínar hendur þegar Erna Solberg forsætisráðherra neitaði að funda með Cruise í fyrrasumar um sóttkvíarundanþágu fyrir hann og 200 manna starfslið vegna gerðar Mission Impossible 7 sem tekin var að hluta í Rauma og Hellesylt. Nú stefnir í tökur áttundu myndarinnar í Noregi. Ljósmynd/Abid Raja/Norska menningarmálaráðuneytið

Aðeins örfáum mánuðum eftir að tökum á atriðum í sjöundu og nýjustu Mission Impossible-myndinni, Libra, lauk í Hellesylt og Rauma í Noregi á haustdögum eru samningaviðræður hafnar um að Tom Cruise og hans fólk snúi aftur til Noregs til að taka þar upp atriði fyrir áttundu mynd þessa lífseiga framhaldsmyndaflokks, sem virðist engin endamörk þekkja, Scorpio eins og hún mun heita.

Á fimmtudaginn opinberaði Norska kvikmyndastofnunin (Norsk Filminstitutt, NFI) lista yfir þær kvikmyndir sem sótt hefur verið um hvatningarstyrk fyrir árið 2021 samkvæmt hvatningaráætlun (n. insentivordning) stofnunarinnar sem ætlað er að styðja við stærri kvik­mynda­verk­efni í Nor­egi og felst í end­ur­greiðslu allt að fjórðungs þess kostnaðar sem til fell­ur inn­an­lands við gerð kvikmyndar. Nam endurgreiðsla fyrir M:I7 í fyrra 50 milljónum norskra króna, jafnvirði rúmra 750 milljóna íslenskra króna.

Á þeim lista mátti sjá umsókn frá True North Norway, þjónustufyrirtæki fyrir og tengilið við erlenda kvikmyndaframleiðendur, þar á meðal aðstandendur Mission Impossible við tökur í Noregi fram til þessa, og snýr umsóknin að verkefninu Scorpio

Tom Cruise, grímuklæddur í takt við tímann, ásamt Gjengedal-hjónunum í …
Tom Cruise, grímuklæddur í takt við tímann, ásamt Gjengedal-hjónunum í fimmtugsafmæli Anders Gjengedal á hóteli í Sunnmøre í haust. Cruise birtist þar óvænt og ræddi við gesti og gangandi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Frumsýning þessarar áttundu myndar flokksins hefur þegar verið sett á nóvember 2022 en aðdáendur njósnamyndanna bíða þess nú með ofvæni að fá að sjá sjöundu myndina sem fengið hefur frumsýningardaginn 21. nóvember á þessu ári.

Verði af tökum fyrir Scorpio í Noregi er hún þriðja myndin í röð í MI-flokknum sem tekin er að hluta í Noregi, en lokaatriði Mission Impossible 6: Fallout, var tekið á einum fjölsóttasta ferðamannastað Rogaland-fylkis, Preikestolen, haustið 2017 eins og mbl.is fjallaði um á sínum tíma.

Stórleikarinn Tom Cruise hefur ekki farið í grafgötur með hrifningu sína af norsku landi og þjóð og sendi frá sér myndskeið eftir tökurnar í haust þar sem hann þakkaði fyrir sig og boðaði um leið komu sína fyrir næstu tökur.

„Kærar þakkir fyrir góðar móttökur og alla hjálpina. Að fá að vera hér eru forréttindi og þá tala ég ekki bara fyrir sjálfan mig heldur allan mannskapinn sem hingað kom. Þið eigið dásamlegt land og fólkið hér er einstakt,“ sagði Cruise í hjartnæmum kveðjuorðum sínum.

Góðu móttökurnar má hann að mestu þakka menningarmálaráðherranum Abid Raja þar sem á tímabili leit alls ekki út fyrir að Cruise fengi að koma til Noregs, rakleiðis frá Bandaríkjunum með 200 manna starfslið og fá undanþágu frá nær ósveigjanlegum norskum reglum um tíu daga sóttkví. 

Sumir komast upp með að hanga bara í vinnunni, hér …
Sumir komast upp með að hanga bara í vinnunni, hér hangir Cruise utan á Preikestolen, skammt frá Stavanger í Noregi, við tökur á Mission Impossible 6 í september 2017. Ljósmynd/Paramount Pictures

Bað Cruise upphaflega um fund með Ernu Solberg forsætisráðherra til að ræða sóttkvíarmál, en hún vildi ekkert við hann tala. Raja var þá fljótur að hrifsa leikarann á sinn fund og greiða götu Cruise og starfsliðsins, en auk þeirra 200 starfsmanna sem fylgdu honum réð hann aðra 200 í Noregi til að starfa við myndina.

Kvað ráðherra ekk­ert óeðli­legt við að aðstand­end­ur Missi­on Impossi­ble-mynd­anna fengju slíka und­anþágu úr hendi norskra stjórn­valda, all­ir er­lend­ir kvik­mynda­fram­leiðend­ur sem nytu hvatn­ing­ar­styrks NFI fengju und­anþágu til að koma til Nor­egs án sótt­kví­ar.

„Eftir sex ár með hvatningarstyrkjakerfið sjáum við að Noregur er orðinn mjög eftirsóttur staður við gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta,“ segir Kjersti Mo, forstjóri NFI, í fréttatilkynningu í tengslum við birtingu umsóknalistans fyrir 2021. „Þetta táknar að norski kvikmyndageirinn býður fram hágæðaþjónustu auk þess sem á boðstólum er stórbrotin náttúra og öruggt starfsumhverfi.“

Paramount Pictures, framleiðanda Mission Impossible, stendur til boða endurgreiðsla kostnaðar sem nemur að hámarki 68,6 milljónum norskra króna, jafnvirði rúmlega milljarðs íslenskra.

Umsóknir um hvatningarstyrki voru alls ellefu fyrir árið 2021, sjö frá norskum framleiðendum og fjórar frá erlendum. 

MS Fridtjof Nansen sem Cruise og starfsfólk hans gistu meðan …
MS Fridtjof Nansen sem Cruise og starfsfólk hans gistu meðan á tökum fyrir Mission Impossible 7 stóð í Mæri og Raumsdal í fyrra. Vakti dvölin viðsjár en tvö norsk stéttarfélög töldu að við þessa notkun hefði skipið orðið að hóteli og félli þar með undir norsk lög og kjarasamninga en laun filippseysku áhafnarinnar um borð voru allt niður í 29 norskar krónur á tímann eftir samningum við áhafnaleigur á Filippseyjum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Cavernia

Menningarmálaráðherrann Abid Raja fagnar endurkomu Tom Cruise og hans fólks ákaflega, enda hafa báðir hangið utan á þverhnípi Preikestolen, Cruise við gerð M:I6 og Raja við gerð raunveruleikaþáttarins 71 grader nord þar sem þjóðþekktir Norðmenn keppa sín á milli við að leysa ýmsar þrautir.

„Svona margir sterkir umsækjendur bera vott um að Noregur heldur áfram að lokka til sín stóra framleiðendur. Við hlökkum til að fá Tom Cruise aftur til Noregs og þangað til það gerist hlökkum við til frumsýningar M:I7,“ segir Raja í tölvupósti til norska ríkisútvarpsins NRK.

Sótt hefur verið um hvatningarstyrki til NFI fyrir eftirfarandi verkefni í Noregi árið 2021:

Scorpio Umsækjandi: True North, framleiðsluland: Bandaríkin
Trolls Umsækjandi: Motion Blur, framleiðsluland: Noregur
The Hanging Sun Umsækjandi: Storm, framleiðsluland: Ítalía
Festning Norge Umsækjandi: Maipo, framleiðsluland: Noregur
Wisting sesong 2 Umsækjandi: Cinenord, framleiðsluland: Noregur
The Devil's Star Umsækjandi: Working Title Productions, framleiðsluland: Bretland
Fenris Umsækjandi: Nordisk Film, framleiðsluland: Noregur
Ragnarok III Umsækjandi: SAM Productions, framleiðsluland: Danmörk
Emergency Unit Umsækjandi: ITV Studios Norway, framleiðsluland: Noregur
Hodejegerne The Prequel Umsækjandi: Yellow Bird, framleiðsluland: Noregur
Velkommen til Utmark sesong 2 Umsækjandi: Paradox, framleiðsluland: Noregur

NRK

Dagsavisen

TV2

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert