Rannsókn Pfizer í Ísrael lofar góðu

Bólusett í Tel Aviv, höfuðborg Ísraels.
Bólusett í Tel Aviv, höfuðborg Ísraels. AFP

Rannsókn sem lyfjafyrirtækið Pfizer stendur fyrir á bóluefni sínu í Ísrael, gengur vel. Niðurstöður berast jafnt og þétt og lofa góðu, að því er segir í frétt Reuters.

Um 3,5 milljónir manna hafa nú verið bólusettar að hluta eða heild, og styttist í að meirihluti fullorðinna í landinu verði að fullu bólusettur.

Niðurstöður sýna áberandi samdrátt í veikindum hjá eldra fólki og fólki í áhættuhópum, þeim hópum sem fyrstir voru bólusettir.

Í aldurshópnum 60 ára og eldri hefur tilfellum veirunnar fækkað um 53%, sjúkrahúsinnlögnum fækkað um 39% og alvarlegum veikindum fækkað um 31%, á tímabilinu frá miðjum janúar til 6. febrúar, að því er haft er eftir Eran Segal, tölfræðingi hjá Wizmann-vísindastofnuninni í Rehovot í Ísrael.

Sé litið til fólks undir 60 ára aldri, hefur tilfellum veirunnar á sama tímabili fækkað um 20% en sjúkrahúsinnlögnum hins vegar fjölgað um 15% og alvarlegum veikindum fjölgað um 29%. Sá hópur hefur ekki verið bólusettur að sama marki.

Rannsókn Pfizer í Ísrael er svokölluð fjórða fasa rannsókn, sem gefur upplýsingar um hve áhrifaríkt bóluefnið er í raunverulegum aðstæðum, en ekki aðeins í einangruðum tilraunum á rannsóknarstofum. Svipar henni því til þeirrar rannsóknar sem Kári Stefánsson og íslensk stjórnvöld reyndu að fá Pfizer til að framkvæma hér á landi, án árangurs.

Faraldrinum ekki lokið

Þrátt fyrir bólusetningarherferðina er faraldrinum síður en svo lokið í landinu. Segir í grein Reuters að Ísraelar hafi nú minni væntingar en áður um að það gerist í bráð enda hafi tilfellum fjölgað þar sem víða annars staðar á liðnum vikum og mánuðum.

Mjög harðar samkomutakmarkanir eru í gildi í landinu í þriðja sinn en illa hefur gengið að hemja útbreiðsluna, sem rakin er til hraðrar útbreiðslu breska afbrigðis veirunnar. Sé litið á björtu hliðarnar virðist bóluefni Pfizer og BioNTech þó virka vel gegn afbrigðinu.

„Við höfum hingað til séð sömu virkni, um 90-95%, hjá breska afbrigðinu,“ segir Hezi Levi, skrifstofustjóri ísraelska heilbrigðisráðuneytisins. „Það er þó enn of snemmt að segja til, því við höfum bara lokið einni viku af síðari bólusetningunni,“ segir hann. „Þá er ekkert hægt að segja um suðurafríska afbrigðið enn.“

Strangtrúaðir gyðingar komu saman í Jerúsalem í gær til að …
Strangtrúaðir gyðingar komu saman í Jerúsalem í gær til að mótmæla samkomubanni sem er í gildi í landinu vegna faraldursins. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina