Þóttust hafa klifið Everest

AFP

Yfirvöld í Nepal hafa bannað tveimur indverskum fjallgöngumönnum og leiðangursstjóra þeirra að klífa fjöll í landinu næstu sex árin eftir að rannsókn leiddi í ljós að þeir lugu til um að hafa klifið Everest árið 2016.

Narender Singh Yadav og Seema Rani Goswami fengu það staðfest af ferðamálayfirvöldum í Nepal að þeim hefði tekist að klífa Everest, en rannsókn hófst á fjallgöngu þeirra þegar Yadav tókst ekki að leggja fram neinar sönnur á þrekvirkinu þegar hann var tilnefndur til verðlauna. 

Að standa á tindi Everest, sem er hæsta fjall heims, er eitt helsta afrek sem nokkur fjallgöngumaður getur náð. Þegar Yadav var skráður á lista yfir þá sem áttu möguleika á að hljóta Tenzing Norgay-verðlaunin í fyrra fóru ýmsir aðrir fjallgöngumenn að lýsa vantrú á að þeir hefðu nokkurn tíma náð á tindinn.

Samkvæmt upplýsingum frá ferðamálaráðuneyti Nepal lögðu þeir fram fölsuð gögn, þar á meðal myndir. Þessar upplýsingar ásamt samtölum við sjerpa sem þekkja best til á Everest leiddu ráðuneytið að þessari niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert