Prestur bjargaði lífi hans

Willie B. Smith III.
Willie B. Smith III. AFP

Rúmlega fimmtugur fangi frá Alabama slapp naumlega undan aftöku í gær eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi ólöglegt að banna presti mannsins að vera við hlið hans við aftökuna.

Willie Smith, sem er 52 ára að aldri, hefur setið á dauðadeild í 30 ár en hann var dæmdur árið 1991 fyrir manndráp á 22 ára gamalli konu í Birmingham í Alabama, eftir að hafa rænt hana við hraðbanka í borginni.

Lögmenn Smiths hafa undanfarna áratugi reynt að fá dauðarefsingunni hnekkt og vísað til greindarskerðingar hans en greindarvísitala hans er undir 75 sem er lágmarkið til þess að vera tekinn af lífi í Bandaríkjunum. Er þar vísað til þess að viðkomandi geti gert sér grein fyrir alvarleika glæpsins sem hann framdi. 

Nú þegar aftökudagurinn hafði verið ákveðinn áfrýjuðu lögmenn hans til alríkisdómstóls þeirri ákvörðun yfirvalda að banna presti Smiths að vera viðstöddum aftökuna. Ástæðan fyrir neitun fangelsismálayfirvalda eru sóttvarnareglur vegna Covid-19 að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Smith hafði óskað eftir því að prestur hans fengi að vera við hlið hans við aftökuna, að eigin sögn til að auðvelda honum flutning á milli heima lifandi og dauðra.

Alríkisdómstóll féllst á þetta með lögmönnum Smiths og að aftökunni yrði frestað tímabundið en yfirvöld í Alabama áfrýjuðu niðurstöðu alríkisdómstólsins til Hæstaréttar. Meirihluti Hæstaréttar hafnaði áfrýjun Alabama með þeim orðum að ríkið geti ekki tekið Smit af lífi án þess að prestur hans verði viðstaddur. Þrír dómarar greiddu atkvæði gegn þessari ákvörðun Hæstaréttar; Brett Kavanaugh, Clarence Thomas og John Roberts.

Jafnvel er talið að yfirvöld nái að taka Smith af lífi síðar í dag, það er ef prestur hans fær að vera viðstaddur. En heimildin til að taka Smith af lífi núna rennur út síðar í dag. Ef af henni verður er þetta fyrsta aftakan sem ríki Bandaríkjanna lætur framkvæma á árinu 2021. Aftökum á vegum ríkja Bandaríkjanna fækkaði mjög á síðasta ári en á sama tíma lét ríkisstjórn Donalds Trumps taka 13 fanga af lífi á hálfu ári.  

Við réttarhöldin yfir Smith kom fram að hann hafi rænt 80 bandaríkjadölum af Sharma Ruth Johnson við hraðbankann og síðan farið með hana í kirkjugarð þar sem hann skaut hana til bana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert