Veikindi Trumps alvarlegri en látið var með

Donald Trump á leið sinni frá Walter Reed-sjúkrahúsinu, þar sem …
Donald Trump á leið sinni frá Walter Reed-sjúkrahúsinu, þar sem hann dvalist í nokkra daga eftir að hafa fengið Covid-19. AFP

Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, var veikari en hann vildi vera láta þegar hann greindist með kórónuveiruna í október í fyrra, stuttu fyrir kosningar. Súrefnismagn í blóði hans hafði fallið verulega og hann glímdi við lungnavandamál. New York Times greinir frá þessu og hefur eftir fjórum ónafngreindum heimildarmönnum.

Útlitið var svo slæmt áður en hann var færður á Walter Reed-hersjúkrahúsið að óttast var að hann þyrfti á öndunarvél að halda, segja heimildarmenn. Súrefnismagn í blóði fór niður í um 80 prósent, en talið er alvarlegt ef hlutfallið fer vel undir 95 prósent.

Í grein New York Times segir að teymi forsetans hafi alla tíð reynt að gera lítið úr veikindunum og sagt hann vera á batavegi þegar svo var ekki. Þá segir að enn sé spurningum ósvarað um hvort Trump hafi þegar verið með veiruna 29. september þegar fyrstu kappræður hans og Joes Bidens, forsetaframbjóðanda demókrata, fóru fram. Aðeins tveimur dögum síðar var tilkynnt að Trump hefði greinst með veiruna.

mbl.is