„K2 er fjallið okkar“

John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali.
John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali. Ljósmynd/John Snorri

Mohammads Ali Sadpara verður minnst sem fjölhæfs fjallgöngumanns af alþjóðasamfélaginu og sem hetju heimalands síns, Pakistans. 

Sadpara er eini Pakistaninn til þess að klífa átta af 14 hæstu tindum heims, auk þess sem hann varð fyrstur manna til þess að klífa Nanga Parbat, níunda hæsta tind heims, að vetrarlagi. 

Síðast sást til Sadpara föstudaginn 6. febrúar, ásamt samferðamönnum hans, John Snorra Sigurjónssyni og hinum síleska Juan Pablo Mohr, skammt frá toppi næsthæsta tinds heims, K2.

Sajid, sonur Sadpara, var einnig hluti af hópi föður síns og var hugmyndin sú að feðgarnir myndu verða þeir fyrstu til að ná toppi K2 að vetrarlagi án súrefnis, en Sajid þurfti að snúa til baka við svokallaðan Flöskuháls, stundum kallað dauðasvæðið, vegna veikinda.

Sajid Sadpara segir K2 hafa verið fjallið þeirra feðga.
Sajid Sadpara segir K2 hafa verið fjallið þeirra feðga. AFP

Sajid hefur síðan hjálpað pakistanska hernum við leitina að föður sínum og félögum hans, en hann er ekki vongóður um að faðir hans finnist á lífi. „Ég er þakklátur fyrir þá sem skipuleggja leitina, en það er ólíklegt að þeir séu á lífi,“ var haft eftir Sajid fyrr í vikunni. 

En hver er Mohammad Ali Sadpara? 

Sadpara fæddist í samnefndu þorpi í einum af árdölum Himalajafjallanna í norðurhluta Pakistans árið 1976. Búskapur er aðalatvinnugreinin á svæðinu, auk þess sem unga fólkið starfar gjarnan sem burðarfólk fyrir vestrænt fjallgöngufólk og ævintýraferðamenn sem streyma á svæðið ár hvert.

Sadpara lauk neðri stigum grunnskóla í þorpinu áður en faðir hans, sem var lágt settur starfsmaður pakistanskra yfirvalda, flutti með fjölskylduna til bæjarins Skardu, þar sem Sadpara stundaði nám fram að menntaskólastigi áður en hann sneri sér að fjallgöngum.

Nisar Abbas, blaðamaður af svæðinu og vinur og ættingi Sadpara úr þorpinu, segir Sadpara hafa verið einstakan allt frá barnæsku. Hann hafi haft líkamsbyggingu og lifnaðarhætti íþróttamanns, auk þess sem hann hafi verið góður námsmaður. Hann hafi aldrei fallið í skóla og vegna þess hve eldri bróður hans gekk illa í skóla hafi það verið föður hans mikilvægt að tryggja honum góða menntun. Þess vegna hafi hann flutt með fjölskylduna til Skardu. 

Sadpara varð fljótlega mjög vinsæll meðal ferðaskrifstofa á svæðinu, ekki síst vegna þess að hóparnir sem hann leiddi náðu oftast markmiðum sínum. Hann varð svo heimsfrægur árið 2016 þegar þriggja manna hópur hans komst á topp Nanga Parbat að vetri til.

Þeir sem hafa klifið með Sadpara lýsa ótrúlegu úthaldi hans, hugrekki og vinsemd, en á síðustu þremur árum hafði Sadpara farið reglulega til Frakklands og Spánar til þess að þjálfa háskólanema í fjallamennsku.

En hvers vegna að fara á topp K2 án súrefnis?

Ein kenning hefur verið sú að Sadpara hafi verið að vinna sem burðarmaður fyrir John Snorra og hafi þurft að standa við samkomulag sem þeir hafi gert sín á milli. Abbas, blaðamaður og vinur Sadpara, segir það rangt. Sadpara hafi sagst vilja ná toppi K2 eftir að fregnir bárust af því að tíu manna hópur Nepala hafi náð þeim árangri að verða fyrstir til að klífa K2 að vetrarlagi í janúar.

Til þess að slá nýtt met hafi Sadpara viljað ná sama árangri, nema án súrefnisbirgða, og hann vildi hafa son sinn Sajid með sér.

„K2 er fjallið okkar“

Samkvæmt Sajid hófu þeir ferðina með hópi 25 til 30 innlendra og erlendra fjallgöngumanna, en allir hafi snúið við áður en komið var í búðir 4, sem eru í 8.000 metra hæð. Sajid fór svo að hraka þegar komið var að Flöskuhálsinum, en þeir feðgarnir voru með neyðarbirgðir af súrefni með sér og sagði Sadpara syninum að fá sér af súrefninu. 

En þegar Sajid var að undirbúa súrefnistankinn sprakk stillir súrefnisgrímunnar og fór að leka. Á meðan höfðu Sadpara og John Snorri haldið áfram göngunni. Sadpara kallaði á son sinn að halda áfram og sagði Sajid honum að kúturinn læki. Faðir hans sagði honum að hafa ekki áhyggjur, að halda áfram að klifra. Honum myndi líða betur.

Sajid tókst hins vegar ekki að safna kröftum og ákvað að snúa við. Þegar þarna var komið var hádegi á föstudegi. Þetta var það síðasta sem Sajid sá af föður sínum. 

Þegar Sajid er spurður hvers vegna faðir hans hafi heimtað að hann héldi áfram segir hann: „Nepalarnir höfðu gert þetta vikum áður, og við vildum gera þetta líka, af því K2 er fjallið okkar.“

John Snorri á K2 í fyrra.
John Snorri á K2 í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Sajid sá þremenningana komast að efsta hluta Flöskuhálsins og telur því að þeir hafi náð á topp fjallsins. Þá segja sérfræðingar flest slys verða á niðurleið, þar sem smávægilegur jafnvægisbrestur geti sent menn fljúgandi niður fjallshlíðina. Þeir sem þekkja Sadpara efast hins vegar um að hann hefði gert slík mistök og minnast nágrannar hans í þorpinu þess þegar kindur sem hann var að líta eftir slösuðust í fjallshlíðunum. Í stað þess að skera þær á háls eins og flestir hefðu gert tók Sadpara slösuðu kindina á axlirnar og bar hana til dýralæknisins í þorpinu. 

Þá, sem þekkja Sadpara, grunar að hann hafi ekki komist til baka vegna þess að hann hafi þurft að aðstoða annan eða báða samferðamenn sína eftir óhapp og hafi reynt að leita leiða til að koma þeim niður af fjallinu. Langt gæti hins vegar liðið þar til komist verður að hinu sanna í málinu og bíður fjöldi fólks um víða veröld eftir kraftaverki, að Sadpara, John Snorri og Mohr finnist á lífi.

Umfjöllun BBC 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert